Afnám tolla heldur aftur af verðbólgu

Talið er að afnám tolla á föt og skó muni …
Talið er að afnám tolla á föt og skó muni draga úr aukningu verðbólgu til skemmri tíma. mbl.is/Júlíus Sigurjónsson

Greiningardeild Arion banka spáir því að vísitala neysluverðs muni standa í stað í september en gangi spáin eftir mun ársverðbólgan hækka í 2,4 prósent. Til lengri tíma litið er nokkur verðbólguþrýstingur talinn vera í kortunum en á sama tíma er talið að styrking krónunnar og afnám tolla á föt og skó muni halda aftur af verðbólgu til skemmri tíma.

Helstu liðir sem hækka í september að mati Greiningardeildar Arion eru föt og skór sökum þess að sumarútsölur ganga til baka, en einnig hækkar húsnæði og tómstundir og menning.

Á móti vegur að flugliðurinn lækkar og vegur þar lækkun flugfargjalda til útlanda þyngst. Einnig lækkar eldsneytisverð en olíufélögin hafa lækkað verð á bensíni umtalsvert undanfarna mánuði vegna lækkunar olíuverðs á heimsmarkaði og styrkingu krónunnar.

„Þótt verðbólguþrýstingur sé framundan bæði vegna verulegra launahækkana og einnig aukningu ráðstöfunartekna vegna lækkunar á tekjuskatti á næsta ári eru aðrir þættir sem vega á móti og draga úr aukningu verðbólgu til skemmri tíma,“ segir Greiningardeildin.

Þar er helst að nefna hraða styrkingu á gengi krónunnar undanfarið en gengisvísitalan hefur styrkst um 3,6% frá byrjun júlí. Einnig mun afnám tolla á föt og skó hafa áhrif en í kynningu fjárlagafrumvarpsins kom fram að lækkun á fatnaði og skóm gæti orðið um 13%.

Vigt undirliðarins í vísitölu neysluverðs er 4,46% og miðað við það gætu áhrif á ársverðbólgu orðið á bilinu 0,5% til 0,6% til lækkunar. Afnám tolla tekur gildi um áramótin eða á sama tíma og útsölur hefjast og getur því orðið erfitt að mæla nákvæmlega hver áhrif af afnámi tollana verða.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Loka