Bjarni: „Þetta er fínt jafnvægi“

Bjarni Benediktsson á fundi um sæstreng í dag.
Bjarni Benediktsson á fundi um sæstreng í dag. mbl.is/Styrmir Kári

Sumum gæti fundist sem stjórnvöld séu að fikra sig áfram á snigilhraða í málefnum er varða lagningu sæstrengs til Bretlands en mikilvægt er að vanda sig í hverju skrefi. Þetta sagði Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, á fundi bresk-íslenska viðskiptaráðsins á Hilton Nordica í dag.

„Mín skoðun á sæstreng er eftirfarandi,“ sagði Bjarni. „Hugmyndin er áhugaverð en við þurfum að vera viss um að hugmyndin sé efnahagslega og samfélagslega hagkvæm,“ sagði hann og bætti við að til lengri tíma þyrftu kostirnir að vera fleiri en áhætturnar.

Auk þessa vísaði hann til nokkurra atriða er hann taldi að taka þyrfti sérstaklega tillit til en þau varða m.a. hagsmuni íslenskra heimila og fyrirtækja auk þess sem huga þurfi að umhverfisáhrifum verkefnisins og aukinna virkjanaframkvæmda sem því gætu fylgt.

Von á nefndarskýrslu

Hann sagði fyrrnefndu atriðin vera í nefnd sem muni brátt skila af sér skýrslu en þar verður m.a. fjallað um möguleg áhrif sæstrengs á raforkuverð til heimila. Í nýlegri greiningu frá Arion banka um þetta atriði kom fram að heildsöluverð raforku myndi að óbreyttu hækka við lagningu sæstrengs. Þar er vísað til umræðu um að Landsvirkjun gæti fengið 80 bandaríkjadollara á MWst, eða rúmar 10 þúsund krónur. Það er um tvöfalt hærra en heildsöluverðið sem íslenskum heimilum býst í dag.

Slík hækkun gæti hækkað rafmagnsreikning heimila um 40%, ef gert er ráð fyrir óbreyttum dreifingarkostnaði.

Aukinn arður gæti þó vegið á móti slíkum hækkunum til almennings og einnig væri mögulegt að nýta hann til að lækka beinan orkukostnað heimila.

Ósnortin náttúra er auðlind

Bjarni sagði umhverfið vera auðlind í sjálfu sér, þrátt fyrir að ekki væri hægt að setja á það verðmiða. Hann benti á að túristar væru í auknum mæli farnir að koma til þess að skoða ósnortna náttúru landsins og að huga þyrfti sérstaklega að því.

„Mín framtíðarsýn er hins vegar sú að við getum hugsað um bæði,“ sagði Bjarni og bætti við að hagur Íslands af hámörkun hagnaðar væri samtvinnaður ábyrgðinni sem Íslendingar bera á umhverfinu. „Þetta er fínt jafnvægi,“ sagði Bjarni.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK