Áform um fjármögnun hótelsins við Hörpu eru óbreytt. „Við látum öðrum eftir pólitísk úrlausnarefni, hvort heldur er á Íslandi eða á alþjóðlegum vettvangi. Sjálfur hef ég fulla trú á umburðarlyndi Íslendinga og virðingu þeirra fyrir öllu fólki,“ segir Richard L. Friedman, forsvarsmaður fjárfesta í Edition Hotel Project, í yfirlýsingu.
DV greindi frá því í dag að fjárfestarnir hefðu greint borgaryfirvöldum frá því framkvæmdin væri í uppnámi vegna samþykktar Reykjavíkurborgar um sniðgöngu á ísraelskum vörum.
„Mér hefur sjálfum verið vel tekið á Íslandi. Sömu sögu er að segja af því verkefni sem ég fer fyrir, hvort heldur er á meðal almennings eða innan borgarstjórnar Reykjavíkur,“ segir Friedman. „Við erum áfram mjög spennt fyrir fyrirhugaðri hóteluppbyggingu og þeim áhrifum sem hún mun hafa á íslenska ferðaþjónustu, efnahag landsins og ásýnd borgarinnar.“
Líkt og fram hefur komið verður hótelið rekið undir merkjum Marritt Edition en heildarfjárfestingin nemur um 130 milljónum dollara, eða um 17 milljörðum íslenskra króna.
Bandaríska Carpenter & Company á byggingaréttinn og mun fjármagna framkvæmdina ásamt Eggerti Dagbjartssyni, sem er minnihlutaeigandi í Carpenter. Gerður hefur verið samningur til fimmtíu ára við Marriott Edition sem mun alfarið sjá um reksturinn.