Síminn á markað

Stjórn Símans hf. hefur ákveðið að óska eftir því við Nasdaq Iceland að hlutabréf félagsins verði tekin til viðskipta á aðalmarkaði. Síminn væntir þess að viðskipti geti hafist 15. október næstkomandi. Arion banki býður 18-21% hlut í almennu útboði 5.-7. október. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Arion banka.

Stærð útboðsins nemur að lágmarki 4,7 milljörðum króna miðað við lágmarksgengi 2,7 krónur á hlut. Síminn væntir þess að viðskipti með hlutabréf félagsins geti hafist á Aðalmarkaði Nasdaq Iceland 15. október.

Áður en kemur að skráningu Símans mun fara fram almennt útboð á hlutabréfum í félaginu dagana 5.-7. október þar sem Arion banki hf. býður til sölu 18-21% eignarhlut í félaginu. Miðað við lágmarksverð útboðsins nemur heildarstærð þess 4,7-5,5 milljörðum króna og svarar það til um 26 milljarða króna markaðsvirðis alls hlutafjár í Símanum.

 Tvær tilboðsbækur verða í boði fyrir fjárfesta. Í tilboðsbók A verður fjárfestum boðið að skrá sig fyrir kaupum að andvirði á bilinu frá 100 þúsund krónum og upp í 10 milljónir króna. Þar verður tekið við áskriftum á verðbilinu 2,7-3,1 króna á hlut en eitt endanlegt útboðsgengi í tilboðsbók A verður ákvarðað af seljanda í lok útboðs.

Í tilboðsbók B verður tekið við áskriftum að andvirði yfir 10 milljónum króna. Þar verður lágmarksverð 2,7 krónur á hlut og ekkert hámarksverð tilgreint af seljanda en eitt endanlegt útboðsgengi í tilboðsbók B verður ákvarðað af seljanda í lok útboðs sem verður jafnt eða hærra útboðsgengi í tilboðsbók A.

Orri Hauksson, forstjóri Símans: „Síminn er með traustar rætur í íslensku samfélagi og sterka stöðu á þeim mörkuðum sem fyrirtækið starfar á. Skráning félagsins í kauphöll er mikilvægt skref fyrir félagið, starfsfólk og hluthafa. Við teljum að félagið sé vel í stakk búið til skráningar og undirbúið fyrir þær áskoranir og aðhald sem skráningu fylgir.”

Höskuldur H. Ólafsson, bankastjóri Arion banka: „Arion banki hefur lagt ríka áherslu á uppbyggingu hlutabréfamarkaðarins hér á landi með því að stuðla að skráningu nýrra félaga í kauphöllina. Það er því ánægjulegt að á fjórum árum hefur Arion banki haft umsjón með skráningu sjö félaga. Síminn er þriðja félagið sem við fleytum á markað í ár með almennu útboði í aðdraganda skráningar. Það hefur verið ánægjulegt að vinna með Símanum að undirbúningi þessara tímamóta, því þarna er á ferðinni mikilvægt og öflugt félag á sviði fjarskipta og tækni, með mikla sögu og sterkt vörumerki. Síminn verður góð viðbót við íslenska hlutabréfamarkaðinn.“

Síminn birtir í dag lýsingu þar sem nálgast má helstu upplýsingar um félagið, hlutabréf þess og fyrirhugað útboð. Jafnframt mun félagið á næstu dögum birta fjárfestum kynningu á starfsemi sinni og útboðinu. Skjölin verða aðgengileg á vef félagsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK