Móðurfélag Arctica Finance hf. hefur gengið frá kaupum á öllu hlutafé í H.F. Verðbréfum hf. Kaupin eru háð fyrirvara um samþykki Fjármálaeftirlitsins.
Arctica Finance og H.F. Verðbréf eru bæði með starfsleyfi frá Fjármálaeftirlitinu sem verðbréfafyrirtæki. Gangi kaupin eftir stendur til að samþætta starfsemi félaganna undir merkjum Arctica Finance. Verðmæti viðskiptanna er trúnaðarmál, en greitt er fyrir kaupin með reiðufé.
Stefán Þór Bjarnason, framkvæmdastjóri Arctica Finance, segir í samtali við mbl að ákvörðun um starfsmannamál hafi ekki verið tekin en farið verður yfir málin þegar afstaða Fjármálaeftirlitsins liggur fyrir. Samkvæmt reglum FME gæti afgreiðsla málsins tekið um sextíu virka daga.
Stefán segir félögin eiga vel saman. Arctica Finance byggir þjónustu sína á því að veita fagfjárfestum og öðrum fjársterkum aðilum ráðgjöf í gegnum þrjú svið; eignastýringu, fyrirtækjaráðgjöf og markaðsviðskipti, en starfsemi H.F. Verðbréfa snýr að tveimur síðarnefndu atriðunum.
Hann segir styrkleika félaganna liggja á ólíkum sviðum og telur að starfsemin verði sterkari fyrir vikið.
„Með sölu H.F. Verðbréfa lýkur 12 ára starfsemi félagsins á verðbréfamarkaði. Hún hófst með litlu skrefi í desember 2003, og hefur allar götur síðan verið viðburðarrík, krefjandi og gjöful,“ er haft eftir Halldóri Friðrik Þorsteinssyni, stofnanda og stjórnarformanni H.F. Verðbréfa, í tilkynningu um kaupin.
„Starfsemi Arctica Finance og H.F. Verðbréfa fellur vel saman og hagræðingin sem af hlýst er umtalsverð. Mér er efst í huga þakklæti til míns góða samstarfsfólks í gegnum árin og fjölmargra viðskiptavina sem hafa treyst okkur til vandasamra verkefna. Nú hefst nýr kafli og ég óska sameinuðu félagi alls góðs í framtíðinni,” er haft eftir Halldóri.
H.F. Verðbréf var sett á stofn af Halldóri Friðriki Þorsteinssyni í árslok 2003 og fékk starfsleyfi til verðbréfamiðlunar í febrúar 2004. Fyrirtækið fékk aðild að Kauphöll Íslands haustið 2006. Í lok þess árs varð fyrirtækið fyrst íslenskra fjármálafyrirtækja til að bjóða upp á beinan markaðsaðgang að Kauphöllinni. Fyrirtækið fékk starfsleyfi sem verðbréfafyrirtæki 2008 og þá bættist fyrirtækjaráðgjöf við starfsheimildir þess.
Heildareignir H.F. Verðbréfa námu í árslok 2014 um 273 milljónum króna og var bókfært virði eigin fjár um 223 milljónir króna.
Hjá H.F. Verðbréfum starfa 11 manns. Framkvæmdastjóri er Daði Kristjánsson.
Arctica Finance var stofnað árið 2009 og er verðbréfafyrirtæki og starfar samkvæmt heimild og undir eftirliti Fjármálaeftirlitsins. Skrifstofa félagsins er á 15. hæð Höfðatorgs við Borgartún.
Heildareignir Arctica Finance voru í árslok 2014 um 700 milljónir króna og var bókfært virði eigin fjár um 540 milljónir króna.
Starfsmenn Arctica Finance eru 18 talsins. Framkvæmdastjóri er Stefán Þór Bjarnason.