Óbreyttir vextir

Seðlabanki Íslands
Seðlabanki Íslands Árni Sæberg

Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að halda vöxtum bankans óbreyttum. Meginvextir bankans, vextir á sjö daga bundnum innlánum, verða því áfram 5,5%. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Seðlabanka Íslands. 

Pen­inga­stefnu­nefndin hækkaði vexti bank­ans um 0,5 pró­sent­ur í ágúst og fóru þeir því úr 5 prósentum í 5,5%. Pen­inga­stefnu­nefnd Seðlabanka Íslands hækkaði einnig vexti bank­ans um 0,5 pró­sent­ur hinn 10. júní sl. 

Hagvöxtur meiri en búist var við

„Á fyrri hluta ársins var vöxtur innlendrar eftirspurnar áþekkur því sem gert var ráð fyrir í síðustu spá Seðlabankans, en hagvöxtur mælist töluvert meiri. Þótt spáskekkjan stafi líklega af tímabundnum þáttum er áfram útlit fyrir öflugan hagvöxt og vaxandi framleiðsluspennu á næstu misserum.

Verðbólga er enn undir markmiði Seðlabankans, sérstaklega ef horft er framhjá húsnæðislið vísitölu neysluverðs, og hefur aukist hægar en gert var ráð fyrir í síðustu spá bankans. Stafar það að nokkru leyti af hærra gengi krónu en sveiflukenndir liðir eiga þar einnig hlut að máli. Verðbólguhorfur til lengri tíma litið hafa því ekki breyst umtalsvert þótt nærhorfur séu betri. Niðurstaða kjarasamninga og tiltölulega háar verðbólguvæntingar benda eftir sem áður til þess að verðbólga muni aukast á næstu misserum. Á móti kemur lækkun alþjóðlegs vöruverðs og tæplega 4% hækkun á gengi krónunnar frá síðustu vaxtaákvörðun þrátt fyrir mikil gjaldeyriskaup Seðlabankans,“ segir í tilkynningu frá bankanum.

Vextir hækka aukist verðbólga

Aukist verðbólga í framhaldi af kjarasamningum svipað og spár benda til mun peningastefnunefndin þurfa að hækka vexti frekar eigi verðbólgumarkmiðið að nást til lengri tíma litið. Hve mikið og hve hratt ræðst af framvindunni og því hvernig greiðist úr þeirri óvissu sem nú er til staðar. Sterkari króna og alþjóðleg verðlagsþróun hefur gefið svigrúm til að hækka vexti aðeins hægar en áður var talið nauðsynlegt en breytir ekki þörf fyrir aukið aðhald á næstu misserum. Vaxtaferillinn mun einnig ráðast af því hvort öðrum stjórntækjum verður beitt til þess að halda aftur af eftirspurnarþrýstingi á komandi misserum. Að teknu tilliti til hagsveiflu felur vænt afkoma ríkissjóðs í ár og frumvarp til fjárlaga 2016 hins vegar í sér slökun á aðhaldi í ríkisfjármálum sem að óbreyttu kallar á meira peningalegt aðhald en ella.

Bindiskylda aukin í 4%

„Peningastefnunefnd hefur ákveðið að auka bindiskyldu úr 2% í 4% frá og með næsta bindiskyldutímabili sem hefst 21. október nk. Er það gert til þess að auðvelda Seðlabankanum stýringu á lausu fé í umferð í framhaldi af miklum gjaldeyriskaupum bankans að undanförnu og í tengslum við uppgjör slitabúa gömlu bankanna og útboð sem áformað er í því skyni að leysa út eða binda svokallaðar aflandskrónur. Nýjar reglur um bindiskyldu verða sendar í dag til birtingar í Stjórnartíðindum,“ segir enn fremur í tilkynningu.

Eitt af helstu stjórntækjum Seðlabankans við stýringu peningamagns er bindiskylda. Hún felur í sér að ákveðið hlutfall af ráðstöfunarfé innlánsstofnana er geymt á sérstökum viðskiptareikningi í Seðlabanka og er bundið fé annaðhvort vaxtalaust eða ber lægri vexti en útlán banka.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK