Bæjarstjórn Reykjanesbæjar hefur hafnað ósk Reykjaneshafnar um fjármögnun til að geta staðið við greiðslur skuldbindinga sem eru á gjalddaga þann 15. október nk. Að öllu óbreyttu mun því koma til greiðslufalls á þeim tíma.
Hinn 2. október sl. óskaði Reykjaneshöfn eftir fjármögnun en í morgun ákvað bæjarráð að hafna beiðninni.
Hafnarstjórn Reykjaneshafnar hefur því ákveðið að óska eftir greiðslufresti og kyrrstöðutímabili frá kröfuhöfum til 30. nóvember næstkomandi. Boðað hefur verið til kröfuhafafundar þann 14. október nk. þar sem farið verður yfir stöðuna og tilkynnt hvort kröfuhafar hafi ákveðið að verða við óskinni.
Í tilkynningu frá Reykjanesbæ segir að bæjarfélagið eigi enn í viðræðum við kröfuhafa um endurskipulagningu skuldbindinga þess en líkt og fram hefur komið er fjárhagsstaða bæjarins alvarleg.
Í tilkynningu segir að viðræðurnar taki mið af því að skuldaviðmið sveitarfélagsins verði komið niður fyrir lögbundið hámark í árslok 2022. Þeir kröfuhafar sem bæjarfélagið hefur átt í viðræðum við hafa veitt afslátt á greiðslum samhliða viðræðunum.
Eigi viðræðurnar að skila árangri sé nauðsynlegt að samkomulag náist við helstu kröfuhafa um verulega niðurfellingu skulda. Þá segir að vinna við endurskipulagningu bæjarins hafi áhrif á skuldbindingar stofnana og félaga bæjarins og er vísað til synjun bæjarráðs á fjármögnun Reykjaneshafnar.
Reykjanesbær er samkvæmt lögum í ábyrgð fyrir skuldbindingum Reykjaneshafnar og er aðkoma kröfuhafa Reykjaneshafnar, í formi endurskipulagningar skulda, forsenda samninga um fjárhagslega endurskipulagningu Reykjanesbæjar að því er segir í tilkynningu.
Náist ekki samningar við kröfuhafa um fjárhagslega endurskipulagningu bæjarfélagsins og stofnana þess verður samkvæmt sveitastjórnarlögum óskað eftir því að bæjarfélaginu verði skipuð fjárhagsstjórn.
Stefnt er að því að leggja fram tillögu að heildar endurskipulagningu fjárhags Reykjanesbæjar og stofnana hans fyrir kröfuhafa á næstunni.