WOWair hefur óskað eftir viðræðum við Kópavogsbæ um úthlutun lóðar á Kársnesi undir nýjar höfuðstöðvar fyrirtækisins. Beiðnin var tekin fyrir á fundi bæjarráðs í gær og var erindinu vísað til bæjarstjóra til frekari úrvinnslu.
Höfuðstöðvar WOW eru í dag í Katrínartúni 12.
Í bréfi WOW til bæjarins segir að óskað sé eftir lóð fyrir byggingu allt að níu þúsund fermetra atvinnu- og skrifstofuhúsnæðis með möguleika á stækkun í allt að tólf þúsund fermetra. Til samanburðar má nefna að rými Hagkaups í Smáralind er um tíu þúsund fermetrar.
Lóðin yrði byggð upp í áföngum en áætlanir félagsins gera ráð fyrir að fyrsti áfanginn verði tilbúinn á árinu 2017 til 2018. Talið er að þörf verði fyrir um tvö hundruð stæði miðað við fullbyggða lóð.
Ef af verður hefur WOW í hyggju að halda samkeppni meðal 4 til 5 arkitektastofa um gerð deiliskipulags og hönnun húss og lóðar.
Húsnæðinu er lýst nokkuð ítarlega í bréfi WOW en þar segir að markiðið sé að byggja glæsilegar og nútímalegar höfuðstöðvar. Þar eiga að vera opin rými fyrir starfsfólk og áhersla verður lögð á tengsl mannvirkisins við sjávarsíðuna og náttúruna. Huga á að tengingu við þá byggð sem fyrir er á svæðinu og þá uppbyggingu sem fyrirhuguð er.
Hugmyndin er að í höfuðstöðvunum verði opin veitingasala og kaffitería með ókeypis nettengingu fyrir almenning. Í húsinu eiga þá einnig að vera opin rými sem gætu nýst fyrir listasýningar eða sambærilega menningarviðburði.
Lóðin á að hluta til að geta nýst almenningi og orðið áfangastaður þeirra sem fara um svæðið með einhverri afþreyingu og aðstöðu. WOW sér þá fyrir sér að við eða undir húsinu verði aðstaða fyrir smábáta og kajaka og að á lóðinni verði komið fyrir listaverkum úr safni Skúla Mogensen, eiganda félagsins.
Óhætt er að segja að WOW hafi vaxið hratt á liðnum árum en það var stofnað í nóvember 2011. Þá störfuðu þar ellefu manns. Hjá WOW starfa um 175 manns allt árið um kring, bæði á skrifstofu og í háloftunum, en u.þ.b. 100 bætast í hópinn yfir sumartímann.
Í sumar greindi mbl frá því að ráða þyrfti 200 nýja starfsmenn en eftir ráðningarnar verða starfsmenn því alls um 375. í bréfi WOW segir að áætlanir geri ráð fyrir að um 200 manns starfi á skrifstofu félagsins á árinu 2017 auk aðstöðu fyrir hundruð flugliða og flugmanna.
Frétt mbl.is: WOW þarf að ráða 200 manns
Í gær var greint frá því að WOW skilaði 560 milljóna króna tapi eftir skatta á síðasta ári. Tekjur félagsins hækkuðu þó um 8,1 prósent milli ára og námu 10,7 milljörðum króna samanborið við 9,9 milljarða króna árið 2013. Tapið má rekja til frestunar á Norður-Ameríkuflugi félagsins árið 2014 þar sem ekki fengust úthlutaðir nauðsynlegir brottfarartímar á Keflavíkurflugvelli.
Eftir að Ameríkuflugið hófst hafa orðið umskipti á rekstrinum þar sem farþegaaukning hefur mælst 38 prósent miðað við sama tíma í fyrra og á seinni helmingi ársins skilaði félagið 58 milljóna króna hagnaði samanborið við 618 milljón króna tap á fyrri helmingi ársins.
Í bréfi WOW til bæjarráðs segir að félagið muni í ár velta um sautján milljörðum króna og að áframhaldandi vöxtur sé í kortunum fyrir komandi ár.