Síminn segir að Jón Ríkharð Kristjánsson, framkvæmdastjóri Mílu, sem er dótturfélag Símans, eigi ekki kauprétt að hlutum í fyrirtækinu. Hins vegar kemur fram í Fréttablaðinu að Jón hafi fengið að kaupa hlut í fyrirtækinu. Síminn segir að ranglega hafi verið tilgreint í lýsingu að Jón ætti kauprétt að 714.853 hlutum, eins og lykilstjórnendur Símans.
Í tilkynningu sem var send til Kauphallar Íslands rétt fyrir kl. 21 í gærkvöldi segir orðrétt:
„Í sátt sem gerð var við Samkeppniseftirlitið er ákvæði sem kveður á um að séu laun og önnur starfskjör starfsmanna Mílu ehf. tengd við afkomu skuli tengingin aðeins miðast við afkomu og árangur Mílu ehf. Samkvæmt kaupréttaráætlun sem samþykkt var á hluthafafundi Símans hf. 8. september 2015 nær hún ekki til starfsmanna Mílu ehf. Hvorki framkvæmdastjóri né starfsmenn Mílu ehf. hafa því kauprétt að hlutum í Símanum hf., líkt og fram kemur í kafla 4.4.3 í lýsingunni. Í töflu í sama kafla er hins vegar ranglega tilgreint að framkvæmdastjóri Mílu ehf., Jón Ríkharð Kristjánsson hafi kauprétt að 714.853 hlutum. Framkvæmdastjóri Mílu ehf. á því ekki kauprétt að hlutum í Símanum hf.“
Fram kemur í Fréttablaðinu í dag, að Jón hafi keypt hlut í Símanum fyrir tæplega tíu milljónir króna í ágúst á genginu 2,5 krónur á hlut. Það sé um þriðjungi lægra verð en raunin varð í almennu hlutafjárútboði sem lauk í síðustu viku.
Haft er eftir Jóni, að Orri Hauksson, forstjóri Símans, hafi sagt að sér persónulega stæði til boða að kaupa hlut í Símanum í sumar sem hann hafi þegið.
Samkvæmt lýsingunni áttu Orri Hauksson, Óskar Hauksson, Birna Ósk Einarsdóttir, Magnús Ragnarsson, Eric Figueras, Jón Ríkharð Kristjánsson og Valgerður H. Skúladóttir kauprétt að 714.853 hlutum í Símanum hf.