Það getur verið kostnaðarsamt fyrir barnafjölskyldur að gera sér glaðan dag og fara út að borða. Nokkrir veitingastaðir á höfuðborgarsvæðinu hafa því ákveðið að létta foreldrum byrðarnar og bjóða yngsta fólkinu frítt að borða. Á kortinu hér til hliðar má sjá nokkra þeirra en nánari útlistun er að finna hér að neðan.
1. Slippbarinn - Mýrargata 2.
Á brunch-hlaðborði Slippbarsins, sem boðið er uppá á laugardögum og sunnudögum frá klukkan 12 til 15, er frítt fyrir börn undir sex ára aldri. Börn frá sex til tólf ára aldri fá 50% afslátt af hefðbundnu verði sem nemur 3.190 krónum.
2. Lifandi Markaður - Borgartún 24
Á Lifandi markaði borða börn undir 10 ára aldri alltaf frítt, alla daga. Þetta á við um salatbarinn, súpur, rétti dagsins og brunch um helgar.
3. TGI Friday's - Smáralind
Á fimmtudögum er hægt að fá tvær fríar barnamáltíðir fyrir börn undir tólf ára aldri á TGI Friday's.
4. Italiano Pizzeria - Hlíðasmári 15
Á sunnudögum fylgir barnamáltíð frítt með á Italiano þegar fullorðinn kaupir mat og drykk.
5. Gló Hafnarfirði - Strandgata 34
Boðið er upp á barnamatseðil á Gló í Hafnafirði á virkum dögum eftir klukkan 16. Þar er einnig sérstakt barnahorn og matseðillinn er ókeypis eins og stendur.
6. Skrúður - Hagatorg
Á veitingastaðnum Skrúði á Hótel Sögu fá allt að tvö börn undir 12 ára aldri frítt á hlaðborðið sem er opið frá klukkan 11:30 til 14 og 18 til 22 alla virka daga. Opnunartími um helgar er frá 11 til 14 og 18 til 22. Börn frá 12 til 16 ára fá 50% afslátt af fullu verði sem nemur allt frá 1.990 krónum til 6.490. Það fer allt eftir því hvenær komið er og hvað er fengið sér.
7. VOX - Suðurlandsbraut 2
Á VOX fá börn undir sex ára aldri frítt í brunch um helgar. Boðið er uppá brunch frá klukkan 11:30 til 14 á laugardögum og frá 11:30 til 15 á sunnudögum. Börn frá 6 til 12 ára aldri fá 50% afslátt af fullu verði er nemur 3.600 krónum.
8. Satt Restaurant - Nauthólsvegur 52
Á Satt Restaurant gildir sama regla og á mörgum öðrum stöðum. Börn undir sex ára aldri fá frían brunch en börn frá 6 til 12 ára aldri fá 50% afslátt af heildarverði er nemur 3.650 krónum.
9. Grand Hótel - Sigtún 38
Á Grand fá börn undir sex ára aldri frítt í brunch á sunnudögum. Börn undir 12 ára aldri fá 50% aflsátt.
10. 4th Floor Hótel / Studio 29 - Laugavegur 101
Frítt er fyrir börn undir sex ára aldri í hádegisverðarhlaðborð á 4th Floor Hótel / Studio 29. Hlaðborðið er í boði á hverjum degi frá klukkan 12 til 14.
11. Pizza Hut - Smáralind
Á Pizza Hut fá börn undir fjögurra ára aldri frítt á pítsuhlaðborð á virkum dögum frá klukkan 11:30 til 14 og á sunnudögum frá 17 til 20:30. Þá kostar 990 krónur fyrir börn frá 4 til 12 ára aldri.