Hópmálsókn gegn Björgólfi Thor Björgólfssyni var þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur klukkan tíu í morgun. Lögmenn málsóknarfélagsins sem höfðaði málið mættu með stóra kassa með málsskjölum sem telja þúsundir.
Í gær höfðu yfir tvö hundruð þátttakendur ákveðið að taka þátt í málsókninni en líkt og fram hefur komið telja stefnendur málsins að Björgólfur hafi með saknæmum hætti komið í veg fyrir að hluthafar Landsbankans fengju upplýsingar um umfangsmiklar lánveitingar og einnig að hann hafi brotið gegn reglum um yfirtöku.
Björgólfur hefur mótmælt þessu og sagt illt að dómskerfið þurfi að eyða tíma sínum í þennan málatilbúnað. Hann skrifaði á heimasíðu sína í gær að málið væri sprottið af þráhyggju Vilhjálms Bjarnasonar, sem hann sagði eiga sér lítil takmörk.
Ljóst er að enn gæti fjölgað í málsóknarfélaginu þar sem hægt er að skrá sig til þátttöku allt þar til aðalmeðferð málsins hefst.
Í stefnu málsins segir að félagsmenn séu allir í þeirri stöðu að hafa orðið fyrir tjóni vegna þess að þeir áttu hlutabréf í Landsbankanum sem urðu verðlaus hinn 7. október 2008 og að þeir hafi verið í þeirri stöðu vegna saknæmrar háttsemi Björgólfs. Þeir hefðu ekki kært sig um að vera hluthafar ef upplýst hefði verið að Landsbankinn lyti stjórn Samson, og hefði átt að teljast móðurfélag hans, og ef upplýst hefði verið um umfangsmiklar lánveitingar bankans til Björgólfs.
Tjón þeirra er talið svara til þess verðs sem greitt hefði verið fyrir hlutabréfin á almennum markaði á þessum tíma, þ.e. þegar skylt varð að veita upplýsingar um yfirráð bankans og lántökur, eða samkvæmt yfirtökuboði. Tjóns annarra, sem keyptu bréf eftir þennan tíma, er talið miðast við kaupverð bréfa sinna. Endanleg fjárhæð mun hins vegar ráðast af því á hvaða grundvelli og frá hvaða tíma fallist verður á bótaskyldu - ef á hana verður á annað borð fallist.