„Konur ráða ekki við álagið“

Stærstu fyrirtækjum landsins er aðallega stjórnað af körlum.
Stærstu fyrirtækjum landsins er aðallega stjórnað af körlum.

Innan við einn af hverjum tíu af æðstu stjórnendum, í stærstu fyrirtækjum landsins, eru konur. Karlar í áhrifastöðum innan sömu fyrirtækja telja þetta vera vegna þess að konur hafi ekki tíma vegna heimilisstarfa, eða að þær ráði ekki við álagið, en konur telja ástandið vera svona þar sem ráðningar séu oft óformlegar og tilkomnar vegna vinatengsla.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri rannsókn Guðbjargar Lindu Rafnsdóttur og Þorgerðar Einarsdóttur, prófessora við félagsvísindadeild Háskóla Íslands. Þær hafa áður rannsakað hlutfall kvenna í stjórnum íslenskra fyrirtækja en nú skoðuðu þær hlut þeirra í stjórnunarstöðum.

Í kynningu á rannsókninni segir að rannsóknir á bakgrunni og einkennum forystufólks hafi oft verið gerðar á Norðurlöndum en aldrei hérlendis. Í næsta mánuði, eða í desember, munu þær kynna annan hluta rannsóknarinnar er á að varpa frekara ljósi á félagslegan, stéttarlegan og fjölskyldulegan bakgrunn hinnar svokölluðu elítu í íslensku atvinnulífi. 

Rannsóknin er unnin út frá gögnum um áhrifafólk í 245 veltumestu fyrirtækjum landsins; gögnum um skráningar fyrirtækjanna og spurningalista sem sendur var út á stjórnendur.

Karlar í meirihluta í 82% tilvika

Niðurstaðan er sú að í 82 prósent tilvika eru karlar í meirihluta í framkvæmdastjórn fyrirtækja. Í 8,6 prósent fyrirtækjanna er kynjahlutfallið jafnt.

Í fyrrnefndu úrtaki voru rúmlega 1.300 stjórnendur og eru alls um 27 prósent þeirra konur.

Í níu prósent tilvika er kona æðsti stjórnandi fyrirtækis, þ.e. forstjóri eða framkvæmdastjóri. „Það er einnig athyglisvert að í þeim fyrirtækjum, þar sem konur eru æðstu stjórnendur, eru konur einnig líklegri til þess að vera öðrum í áhrifastöðum,“ segir Guðbjörg. 

Auk þess sem munur er á stöðu kynjanna innan fyrirtækja virðist einnig töluverður munur á persónuhögum stjórnenda. Guðbjörg bendir á að konur í þessum stöðum séu almennt yngri en karlarnir og með hærra menntunarstig auk þess sem þær eru frekar einhleypar, þrátt fyrir að börn búi oftar á heimilum þeirra. Guðbjörg útskýrir það og bendir á börn búi í flestum tilvikum á heimili móður eftir sambúðarslit.

Samkvæmt spurningarlistanum sem sendur var út á stjórnendur eru karlarnir jafnframt líklegri til þess að búa með konu sem vinnur minna en þeir, en konurnar eru líklegri til þess að búa með körlum sem vinna jafn mikið eða jafnvel meira. 

Þá segir Guðbjörg að áhrifakonurnar séu líklegri en starfsbræður sínir til þess að hafa heimilisstörfin á sinni könnu. „Þannig sjáum við klárlega þetta hefðbundna kynjamynstur hvað varðar heimilisstörf í þessum hópi stjórnenda,“ segir hún.

„Heimilisstörfin flækjast fyrir“

Viðmælendur voru spurðir um viðhorf sín til kynjahallans, þ.e. hvaða þættir gætu verið að hindra konur í að verða æðstu stjórnendur í íslensku atvinnulífi. Guðbjörg segir svörin hafa verið mjög áhugaverð þar sem töluverður munur var á viðhorfinu eftir kyni.

Konur voru líklegastar til þess að skýra kynjahallann með því að atvinnulífinu sé stjórnað af körlum, sem bera ekki traust til kvenna, að ráðningar fari í gegnum óformleg tengslanet þeirra og að karlar eigi erfiðara með að vinna með kvenstjórnendum.

Karlar voru hins vegar líklegri til að segja að konur réðu verr við álagið og að þær fengu síður tækifæri til starfsframa vegna ábyrgðar þeirra á heimilisstörfum.

Rannsóknin verður kynnt á Þjóðarspeglinum á föstudaginn 30. október nk. Þjóðarspegillinn er ráðstefna í félagsvísindum sem haldin er í október á hverju ári við Háskóla Íslands. Þar verða um 150 fyrirlestrar fluttir í u.þ.b. 45 málstofum sem fjalla um það sem efst er á baugi í rannsóknum á sviði félagsvísinda á Íslandi. Aðgangur er ókeypis.

Kvenstjórnendur eru líklegri til þess að hafa heimilisstörfin á sinni …
Kvenstjórnendur eru líklegri til þess að hafa heimilisstörfin á sinni könnu. Jóra Jóhannsdóttir
Rannveig Rist, forstjóri Rio TInto Alcan, tekur við Hvatningarverðlaunum jafnréttismála …
Rannveig Rist, forstjóri Rio TInto Alcan, tekur við Hvatningarverðlaunum jafnréttismála af Ragnheiði Elínu Árnadóttur iðnaðar- og viðskiptaráðherra, fyrr á árinu. mbl.is/Golli
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK