„Það er bara eitt orð yfir þetta. Þetta er bull. Ég hafði sjálfur aldrei átt í útistöðum við Björgólf þegar hann stefndi mér og kærði til sérstaks saksóknara. Kæra sem var hent þaðan út með hraði og háðung, reyndar,“ segir Árni Harðarson um gagnrýni Björgólfs Thors Björgólfssonar.
Árni er eigandi félagsins Urriðahæðar og fyrrum samstarfsmaður Björgólfs í Actavis. Félagið hefur verið að kaupa upp hlutabréf lífeyrissjóða og fer nú með meirihluta í málsóknarfélaginu sem hefur höfðað mál gegn Björgólfi.
„Ég átti von á þessu,“ segir Árni en Björgólfur hefur m.a. sakað hinn fyrrnefda um hefnigirni og kallað þetta „óþverraviðskipti. Hann neitar því alfarið að málið tengist meintum ágreiningi þeirra.
Aðspurður um þetta félag segir Vilhjálmur Bjarnason, sem er einn upphafsmanna hópmálsóknarinnar ásamt lögmanninum Ólafi Kristinssyni, að félagið hafi komið inn í málið með réttmætum hætti. „Ég get hvorki verið ánægður né óánægður með það,“ segir Vilhjálmur í samtali við mbl.
Málsóknin var boðuð fyrir hönd þeirra sem áttu bréf í bankanum og töpuðu fjárfestingunni við fall hans. Talið er að Björgólfur hafi leynt raunverulegu eignarhaldi sínu á bankanum og að yfirtökuskylda hafi myndast. Talið er að þetta hafi verið gert til þess að koma í veg fyrir að hluthafar fengju upplýsingar um lánveitingar til Björgólfs og að þetta hafi haft áhrif á fjárfestingar þeirra.
Samkvæmt fyrirtækjaskrá var einkahlutafélagið Urriðahæð stofnað hinn 1. september sl. og er því nokkuð ljóst að félagið tapaði ekki neinu á falli Landsbankans. Aðspurður hvort þetta sé í samræmi við tilgangi málsóknarinnar segir Vilhjálmur að málið snúist um réttindin þarna að baki. Eigendur þeirra hafi ákveðið að framselja þau og þetta séu bara eðlileg viðskipti.
Árni segist hafa lesið stefnu málsins og blöskrað. „Þetta er alveg með ólíkindum hvernig staðið var að þessu,“ segir hann og vísar til eignarhaldsins, sem var þannig að í rauninni gátu aðeins 20% hluthafa átt aðild að málinu, þar sem restin hafi verið í höndum Björgólfs og tengdra aðila. Helmingur þeirra hluthafa sé farinn á hausinn og því hafi aldrei nema 10% geta tekið þátt.
Þar af voru þrír lífeyrissjóðir sem áttu um 70-80% hlutarins; Gildi lífeyrissjóður, Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins og hjúkrunarfræðinga ásamt Lífeyrissjóði verslunarmanna.
Urriðahæð fékk hluti þeirra tveggja fyrrnefndu framselda ásamt hlutabréfum þriggja annarra lífeyrissjóða sem áttu minni hlut, þ.e. Stafa lífeyrissjóðs, Festa lífeyrissjóðs og Lífeyrissjóðs Vestamannaeyja.
Árni segir ekki standa til hjá félaginu að afla sér fleiri hluta, heldur hafi ætlunin einungis verið að falast eftir hlut lífeyrissjóðanna.
Fyrir framangreinda lífeyrissjóði eru þrír aðirir meðal almennra þátttakenda í málsókninni, en það eru Stapi, Lífeyrissjóður verkfræðinga og Lífeyrissjóður starfsmanna sveitafélaga.
Aðspurður um áhugaleysi lífeyrissjóðanna segir Vilhjálmur að honum hafi heyrst sem þeir hefðu verið búnir að móta þá afstöðu að þeir hefðu tapað nóg og vildu ekki hætta meiri fjármunum.
„Þarna er einhver sem er tilbúinn til þess að taka áhættuna og við því er ekkert að segja. Það hefur engin áhrif á málsóknina í heild,“ segir hann. „Ég er farinn að búast við öllu á þessum markaði,“ segir Vilhjálmur aðspurður hvort uppkaupin á þessum bréfum hafi komið honum á óvart.
Við undirbúning málsins á árinu 2012 sagði Vilhjálmur í samtali við mbl að 350 fyrrverandi hluthafar í Landsbankanum hefðu lýst stuðningi og vilja til þátttöku. Samkvæmt upplýsingum frá málsóknarfélaginu voru þátttakendur í málsókninni orðnir 235 talsins við þingfestingu á þriðjudag.
Aðspurður um affölin segir Vilhjálmur að áhuginn hafi verið óformlegur og að það hafi ekki reynt á þáttökuna fyrr en fundur var haldinn fyrr á árinu og stefnan virt. „Ég held að árangurinn framar vonum. Við erum ekkert óánægð með þetta,“ segir hann. „Sumir vilja ekki taka þátt í þessu af einhverjum ástæðum og aðrir telja að þetta sé ekki árangursríkt. Við því er bara ekkert að segja,“ segir Vilhjálmur.