Heildarkostnaður Árna Harðarsonar, sem fer með meirihluta í hópmálsókninni á hendur Björgólfi Thor, verður líklega á bilinu 81 til 86 milljónir króna.
Viðskiptablaðið greinir frá þessu en líkt og fram hefur komið þurfa stærstu hluthafarnir, þeir sem eiga fleiri en 500 þúsund hluti, að greiða fimmtán prósent af nafnverði hlutabréfa sinna til þess að geta tekið þátt.
Kjarninn greindi fyrst frá því að Árni Harðarson hafi á síðustu viku verið að kaupa hlutabréf, sem eru verðlaus ef málið vinnst ekki, fyrir 25 til 30 milljónir króna.
Félagið Urriðahæð ehf., sem fer með þessa hluti og er í eigu Árna, á nú alls 377,7 milljónir hluta í Landsbankanum og þarf samkvæmt 15% reglunni að greiða 56,7 milljónir króna í félagsgjöld.
Að viðbættum kostnaði við kaupin á hlutabréfunum nemur kostnaður Urriðahæðar því 81,7 til 86,7 milljónum króna.
Árni Harðarson er stjórnarmaður og lögmaður Alvogen og á rúm sextíu prósent þeirra hlutabréfa sem eru að baki hópmálsókninni gegn Björgólfi Thor. Árni og Róbert Wessman, forstjóri Alvogen, hafa átt í löngum deilum við Björgólf sem hefur m.a. stefnt þeim báðum til greiðslu skaðabóta fyrir meintan fjárdrátt.