Tölvuþrjótar náðu að hakka sig inn í persónulegar upplýsingar tæplega tvö þúsund viðskiptavina Vodafone í Bretlandi. Tilkynnt var um málið í dag.
Alls eru viðskiptavinir Vodafone í Bretlandi um 20 milljónir talsins en hakkararnir komust yfir persónulegar upplýsingar 1.827 viðskiptavina. Meðal annars nöfn, símanúmer og bankaupplýsingar.
Fyrir viku síðan var gerð tölvuárás á annað breskt símafyrirtæki, Talk Talk, en sú árás var mun viðameiri og náði til rúmlega 20 þúsund viðskiptavina, bankaupplýsingar þeirra og fleiri upplýsingar. Þrír hafa verið handteknir vegna þess máls.
Vodafone á Íslandi varð fyrir tölvuárás í nóvember 2013 og var alls konar trúnaðarupplýsingum viðskiptavina lekið á netið.