„Langar til að öskra á feðraveldið“

Heiða Kristín Helgadóttir.
Heiða Kristín Helgadóttir. mbl.is/Árni Sæberg

„Í eina röndina fallast manni hendur og langar til öskra á feðraveldið að hætta þessu helvítis rugli,“ sagði Heiða Kristín Helgadóttir, varaþingmaður Bjartrar framtíðar, á Alþingi í dag og uppskar skammir fyrir blótsyrði í ræðustól. Heiða vakti athygli á nýlegri rannsókn á hlutfalli kvenna í stjórnunarstöðum í íslenskum fyrirtækjum.

„En þar sem ég er einstaklega góð í að vinna undir álagi, og sinni vanalega aldrei heimilisstörfum án þess að vera að gera eitthvað annað á meðan, spyr ég: Hvað er hægt að gera til að breyta þessum viðhorfum?“ sagði Heiða.

Líkt og mbl greindi frá á dögunum sýnir rannsóknin sem Heiða vísar til að inn­an við einn af hverj­um tíu af æðstu stjórn­end­um, í stærstu fyr­ir­tækj­um lands­ins, eru kon­ur. Karl­ar í áhrifa­stöðum inn­an sömu fyr­ir­tækja telja þetta vera vegna þess að kon­ur hafi ekki tíma vegna heim­il­is­starfa, eða að þær ráði ekki við álagið, en kon­ur telja ástandið vera svona þar sem ráðning­ar séu oft óform­leg­ar og til­komn­ar vegna vina­tengsla.

Rannsóknin var framkvæmd á vegum Guðbjarg­ar Lindu Rafns­dótt­ur og Þor­gerðar Ein­ars­dótt­ur, pró­fess­ora við fé­lags­vís­inda­deild Há­skóla Íslands.

Frétt mbl.is: „Konur ráða ekki við álagið“

Heiða sagði niðurstöðurnar vera alvarlegar og sláandi. „Ég skil ekki af hverju við erum ekki að tala um þetta, því ef þetta eru viðhorf stjórnenda í atvinnulífinu, hvernig eru þá viðhorf annarra stjórnenda, svo sem í opinbera kerfinu?“ sagði Heiða og spurði hvort stjórnvöld gætu ekki gengið á undan með góðu fordæmi.

Hvort ekki væri hægt að taka það alvarlega, þegar verið er að skipa í áhrifastöður í samfélaginu, að konur eigi þar verulega undir högg að sækja, jafnvel þótt þær hafi sótt sér menntun og „reyni hvað þær geta til að vera með í réttu partýunum.“

„Af hverju er þetta svona?“

Hún nefndi kynjahlutfall í Hæstarétti, á Alþingi og í ráðherraembættum sem dæmi. „Það hlutfall á ekki að vera jafnt með hrókeringum og varamanna innfyllingum. Það hlutfall á bara að vera jafnt árið 2015,“ sagði hún.

Að lokum sagðist Heiða ekki vera hlynnt því að fara fram með boðum og bönnum þrátt fyrir að hún teldi hluti eins og kynjakvóta í stjórnum fyrirtækja vera mikilvægt skref í átt að því að hleypa fleiri konum að og breyta þannig viðhorfum. „En það þarf augljóslega meira til og ég hvet alla að spyrja sjálfa sig og trúnaðarvini sína af hverju þetta sé svona og taka þetta sameiginlega samfélagslega vandamál alvarlega,“ sagði Heiða.

Í nýlegri rannsókn kemur f ram að stærstu fyrirtækjum landsins …
Í nýlegri rannsókn kemur f ram að stærstu fyrirtækjum landsins er aðallega stjórnað af körlum.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK