IKEA og sænska sendiráðið efndu til fundar um hagkvæma húsnæðiskosti í þéttbýli í morgun. Eva Magnusson, framkvæmdastjóri hjá Bo Klok, samstarfsverkefnis IKEA og verktakafyrirtækisins Skanska, segir fyrirtækið ekki vera á leið til Íslands en lýsti kostunum við ódýrar timburbyggingar.
Fundurinn fór fram á nýju kaffihúsi IKEA í Garðabæ.
Bo Klok, sem má þýða sem „byggðu klókt“ hefur byggt þúsundir timburíbúða á Norðurlöndum og í Þýskalandi og geta þær verið allt að helmingi ódýrari en sambærilegar hefðbundnar íbúðir.
Á heimasíðu Bo Klok segir að við stofnun fyrirtækisins hafi hinn „týpíski viðskiptavinur“ verið búinn til; Einstæð móðir, leiksólakennari, með lítið á milli handanna. „Það er orðrómur um að við séum á leið til Íslands. Það er ekki rétt en við erum ánægð með að fá að miðla þekkingu okkar áfram,“ sagði Eva Magnusson, framkvæmdastjóri hjá Bo Klok, í morgun.
Bo Klok eru kölluð „húsin í flötu pakkningunum“ og eru seld í IKEA þar sem áhugasamir viðskiptavinir geta mætt, skráð sig og eru nöfn þeirra sem fá að kaupa síðan dregin úr potti.
Bo Klok húsin eru byggð úr timbri líkt og áður segir, en Eva segir kostnaðarhagkvæmnina ekki einungis felast í því. Húsin eru sett saman á mjög stuttum tíma í verksmiðjum Bo Klok og síðan flutt á lóðina. Þá er leitað eftir mjög ódýrum lóðum en fyrirtækið hefur einmitt stundum verið gagnrýnt fyrir lélega staðsetningu íbúða. Hún segir fyrirsjáanleika einnig skipta öllu máli fyrir reksturinn. „Við framleiðum sömu vöruna aftur og aftur,“ sagði hún og bætti við að hægt væri að ná byggingarkostnaði niður með slíkri fjöldaframleiðslu.
Bo Klok einblínir á Skandinavíu þessa stundina og í Svíþjóð, þar sem húsnæðisþörfin er mikil, reiknar Eva með að byggja um 1.000 heimili á hverju ári innan tveggja til þriggja ára. Í Finnlandi og Noregi er verið að byggja um 150 hús á ári.
Fulltrúi Swedish Wood Building Council, samtök er vinna að því að hvetja til frekari notkun timburs við byggingarframkvæmdir, ræddi einnig um kostina við timburbyggingar. Hann sagði timburhúsnæði ekki vera verri en önnur og vísaði til vinsælda þeirra á svæðum í Noregi, Svþjóð og Finnlandi þar sem úrkoman er mikil og nístingskuldi á veturna.
Hann vísaði til aukinna vinsælda fjölbýlishúsa og stærri mannvirkja úr timbri og sagði slíkar nýbyggingar vera um 10% af þeim byggingarframkvæmdum sem nú eru í gangi í Svíþjóð.
Hann sagði að Íslendingar ættu ekki að horfa til framkvæmdarinnar í Svíþjóð á síðustu árum, þar sem húsnæðisskortur er vaxandi vandamál, vegna þess að framboð hefur einfaldlega ekki haldið í við vaxandi eftirspurn og þannig valdið hækkandi húsnæðisverði. Íslendingar ættu frekar að horfa til nýrri lausna og vísaði til timburhúsanna í þeim efnum.