„Það er óásættanlegt að fyrirhugaðar aðgerðir tryggi hagsmuni kröfuhafa, en skapi efnahagslega áhættu fyrir heimili og fyrirtæki á Íslandi,“ segir í yfirlýsingu frá InDefence hópnum vegna undanþágubeiðna slitabúanna.
InDefence hópurinn telur að fyrirhugaðir nauðasamningar við slitabúin, á grundvelli þessara undanþágubeiðna, skilji eftir stóran óleystan vanda. Þessi vandi byggist á því að kröfuhöfum slitabúanna verður hleypt út úr höftum með allt að 500 milljarða króna í erlendum gjaldeyri.
Fyrir vikið sitji almenningur, fyrirtæki og lífeyrissjóðir á Íslandi eftir með mikla efnahagslega áhættu og verði að treysta á bjartsýna hagvaxtarspá Seðlabanka Íslands. „Standist hún ekki, munu lífskjör á Íslandi skerðast og áframhaldandi fjármagnshöft til margra ára.“
Indefence segir ennþá vera óútskýrt hvaða ráðstafanir hafi verið gerðar til að forða heimilum og fyrirtækjum frá „frekari aðlögun“ þegar búið sé að hleypa kröfuhöfum slitabúanna og krónubréfaeigendum úr landi.
„Það verður m.a. að sýna fram á að þessar gríðarlegu fjárhæðir séu ekki nauðsynlegar til að afnema höft á innlenda aðila.“
InDefence segir tvennt vera sérstaklega sláandi við þá greiðslujafnaðargreiningu sem Seðlabankinn hefur nú birt og er notuð til grundvallar mati á undanþágum slitabúanna frá gjaldeyrishöftum.
Í fyrsta lagi, þrátt fyrir mjög bjartsýna spá um viðvarandi afgang af vöru- og þjónustuviðskiptum, sem sé töluvert umfram sögulegt meðaltal, þá fari megnið í að greiða vexti af skuldum þjóðarbúsins.
Eftir standi 110 milljarðar króna árin 2016-2019. Samkvæmt greiningu Seðlabankans sé þó ekki hægt að nota þessa upphæð til að afnema höft á almenning, fyrirtæki og lífeyrissjóði, þar sem nota þurfi þennan afgang til að greiða skuldir. Miðað við greiningu Seðlabankans á áhrifum af undanþágum slitabúanna sé því mjög takmarkað svigrúm til að afnema höftin á aðra en kröfuhafa.
Indefence segir vanta sárlega greiningu á því hvernig stöðugleikaskatturinn kæmi út til samanburðar.
Hitt sem sé sláandi við greiningu Seðlabankans sé hagvaxtarspá hans, „sem byggist á afar bjartsýnum forsendum.“ InDefence bendir á að Seðlabankinn segist sjálfur byggja mat sitt á hagvexti sem sé „hinn mesti á meðal þróaðra ríkja”.
Hann tilgreini hins vegar aðeins forsendur hagvaxtar fyrir árinn 2015-2017. Engar upplýsingar liggi fyrir um forsendur eftir það tímabil.
„Það væri óvarleg óskhyggja að gera ráð fyrir hagvöxtur á Íslandi haldi áfram að vera meiri en hjá öðrum vestrænum ríkjum til langs tíma.“