Á hluthafafundi CCP í dag var tilkynnt um 30 milljóna dollara fjárfestingu, eða sem jafngildir tæpum fjórum milljörðum íslenskra króna, í fyrirtækinu sem er ætlað að efla starfsemi þess á sviði sýndarveruleika. Fjárfestingin er leidd af stærsta framtakssjóði heims; New Enterprise Associates (NEA), með þátttöku Novator Partners.
Helstu hluthafar fyrirtækisins í dag eru Novator, General Catalyst og NEA.
Þessi nýja fjárfesting verður nýtt til að styrkja enn frekar stöðu CCP á sviði sýndarveruleika, nú þegar þessi nýja tækni er tekin að umbreyta afþreyingariðnaðinum, að því er segir í tilkynningu.
Harry Weller, einn af stjórnendum NEA, hefur tekið sæti í stjórn CCP auk þess sem annar fulltrúi NEA, Andrew Schoen, hefur tekið sæti varamanns í stjórn fyrirtækisins.
CCP hefur þegar tilkynnt um útgáfu á tveimur tölvuleikjum á sviði sýndarveruleika sem væntanlegir eru á næstu 8 mánuðum; EVE Valkyrie sem kemur út fyrir Oculus Rift á PC næsta vor og fyrir PlayStation VR á PlaySation 4 á fyrri helming næsta árs, og Gunjack sem koma mun út fyrir Gear VR búnað Samsung síðar í þessum mánuði.
„Við höfum fylgst með starfsemi CCP um nokkurt skeið. Reynsla fyrirtækisins af útgáfu EVE Online og brautryðjendastarf þess á sviði sýndarveruleika hefur komið fyrirtækinu í fremstu röð á þessum vettvangi, og við viljum vera samstarfsaðilar þess í enn frekari landvinningum á þessu sviði,“ er haft eftir Harry Weller, einum af stjórnendum NEA, í tilkynningu.
„Það er okkar trú að sýndarveruleiki muni ekki aðeins umbylta tölvuleikjum og gerð þeirra, heldur tækniiðnaðinum í heild sinni. Við vorum með í þessari þróun frá byrjun, og þessi fjárfesting gerir okkur kleift að viðhalda forskoti CCP á þessu sviði,“ er haft eftir Hilmari Veigari Péturssyni, framkvæmdastjóra CCP.
NEA hefur lengi verið í fararbroddi i i fjárfestingum á sviði hátækni og heilsugæslu. Innan tæknigeirans hefur sjóðurinn m.a. fjárfest í fyrirtækjum á sviði hugbúnaðargerðar, orkumála og neytendalausna á netinu. Sjóðurinn var stofnaður árið 1977 og hefur fjárfest í um 650 fyrirtækjum í sex heimsálfum. Eignir hans eru metnar á rúmar 17 milljarða Bandaríkjadala.
Á hluthafafundi CCP í dag voru jafnframt kynnt drög að samningi fyrirtækisins við Sturlugötu 6 ehf. um nýbyggingu í Vatnsmýri sem hýsa mun nýjar starfsstöðvar fyrirtækisins á Íslandi á svæði Vísindagarða Háskóla Íslands. Húsið mun jafnframt hýsa fleiri fyrirtæki á sviði tækniþróunar og nýsköpunar.
CCP tilkynnti um flutning starfsemi sinnar á Íslandi yfir í Vatnsmýri fyrr á árinu, þar sem jafnframt voru kynnt áform fyrirtækisins um að styrkja og efla enn frekar samstarf þess við háskólasamfélagið og nýsköpunarfyrirtæki hérlendis.