Fyrirhuguð niðurfelling tolla á fatnað og skóm um næstu áramót er þegar farin að hafa jákvæð áhrif á verðlag hérlendis. Dæmi eru um að verslanir hafi lækkað verð sem nemur tollunum og taki því á sig almenna verðlækkun sem nemur allt að fimmtán prósentum.
Frétt mbl.is: Afnema fatatolla strax
Þetta segir í tilkynningu frá Samtökum verslunar og þjónustu þar sem bent er á að með þessum verðlækkunum sé verslunin að koma á móts við neytendur og kynna áhrif væntanlegra breytinga, rétt eins og verslanir með raftæki gerðu í lok síðasta árs, áður en lög sem afnámu vörugjöld komu til framkvæmda.
Vísað er til þess að samtökin hafi lagt mikla áherslu á afnám tolla og er það talin veruleg kjarabót fyrir heimilin í landinu, þar sem tollar af fatnaði og skóm á síðasta ári námu alls 1,8 milljörðum króna.
Afnám tollanna jafngildir því 14 þúsund króna sparnaði fyrir meðal heimili á ári. Ávinningurinn fyrir heimilin verður enn meiri við áramótin 2016 til 2017 þegar stefnt er að því að fella niður tolla af öðrum vörum en matvælum. Þá er talið að ávinningur heimilanna verði 16 þúsund krónur til viðbótar á ári.
Við kynningu á fjárlagafrumvarpinu í haust, þegar breytingarnar voru kynntar, sagði Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, að eftir afnám tollanna ætti verslun á Íslandi að standa fyllilega jafnfætis allri sérvöruverslun á Norðurlöndunum. Samtökin taka undir þetta og segja verðlækkunina styrkja samkeppnisstöðu innlendrar verslunar gagnvart verslun erlendis og muni þegar verða til þess að auka vöruframboð hérlendis og lækka verð.
„Afnám tollanna leiðir til varanlega verðlækkunar á þessum vöruflokkum því dæmin sýna að lækkun og afnám tolla, skatta og gjalda skilar sér beint í vasa neytenda,“ segja Samtök verslunar og þjónustu.