Samruni Allergan og bandaríska lyfjafyrirtækisins Pfizer hefur ekki áhrif á fyrirhuguð kaup Teva á samheitalyfjahluta fyrirtækisins sem tilkynnt var um í júlí á þessu ári. Samheitalyfjahluti fyrirtækisins starfar að mestu undir nafni Actavis víða um heim, þar á meðal á Íslandi, en hér á landi er fyrst og fremst starfsemi á sviði samheitalyfja.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Allergan en greint var frá því í dag að samkomulag hefði náðst um fyrrnefndan samruna. Samruninn er metinn á 160 milljarða dollara eða um 21 þúsund milljarða króna. Sameinað fyrirtæki verður stærsti lyfjaframleiðandi heims.
Eins og fram hefur komið er gert ráð fyrir að fyrirhuguð kaup Teva á Actavis, samheitalyfjahluta Allergan, gangi í gegn á fyrsta ársfjórðungi 2016, en að samruni Pfizer og frumlyfjahluta Allergan gangi í gegn um mitt ár 2016.