Sé hlutfall íslenskra ríkisborgara sem flytja til og frá landinu á mismunandi aldursbili árið 2015 borið saman við sambærilegt hlutfall áranna 1986 til 2014 fæst niðurstaðan að engar markverðar breytingar hafi átt sér stað árið 2015.
Aukinn fjöldi brottfluttra er ekki umfram það sem telja má eðlilega sveiflu miðað við fyrri ár. Þessi niðurstaða á við hvort sem horft er til búferlaflutninga hjá einstaklingum eða kjarnafjölskyldum.
Hagstofa Íslands greinir frá þessu.
Ekki sést neinn munur sé horft til þeirra sem eru yngri en 40 ára annars vegar og eldri en 45 ára hins vegar. Þess þá heldur sjást engar vísbendingar um breytta búferlaflutninga þeirra sem eru 20 til 24 ára eða 25 til 29 ára.
Einu marktæku niðurstöðurnar taka til aldurshópsins 40 til 44 ára sem eru hreyfanlegri síðustu ár, þ.e. frá 2009 til 2015, en áður hefur sést. Árið 2015 fluttu marktækt fleiri í þessum aldurshópi til Íslands en áður og lítillega fleiri fluttu brott.
Eftir hrunið 2008, einkum frá árinu 2010, má almennt greina meiri hreyfanleika fólks á aldrinum 40 til 60 ára bæði í brottflutningi og aðflutningi.
Breytileiki flutningsjöfnuðar hjá einstaklingum og fjölskyldum, milli tveggja samliggjandi ára, sýnir ekki marktækar breytingar sé horft til tólf mánaða, þ.e. 1. október til 30. september, árin 1971 til 2015. Í því samhengi eru árin 1989 og 2009 frábrugðin sé horft til einstaklinga en aðeins 2009 sé horft til fjölskyldna. Þar eru talin greinileg áhrif efnahagshrunsins 2008.