Pítsastaðurinn Pizza 67 hefur verið auglýstur til sölu á söluvefnum Bland.is. Anton Traustason, einn eigenda staðarins, setti auglýsinguna inn á vefinn.
Auglýsingin var birt í gærkvöldi og er verðmiðinn tíu milljónir króna en skipti koma til greina. Þar segir að um sé að ræða lítinn en þekktan pítsastað á góðum stað í Reykjavík. Þá segir að staðurinn sé með öllum tækjum og tólum sem þarf.
Pizza 67 á Grensásvegi og í Grafarvogi eru í eigu félagsins P 67 ehf. en eigendur félagsins eru Anton, Ólafur Már Tryggvason og Kristján Þór Jónsson. Félagið hefur ekki skilað inn ársreikningi.
Anton sagði á dögunum í samtali við mbl að opnun veitingastaðarins á Grensásvegi hafi verið mun dýrari aðgerð en gert var ráð fyrir. Hefur félagið P67 ehf. því ekki getað gert upp laun við alla starfsmenn.
Frétt mbl.is: Fær ekki launin frá Pizza 67
Húsnæði Pizza 67 á Grensásvegi hefur einnig verið auglýst til sölu.
Pizza 67 var opnaður í Langarima í desember á síðasta ári og staðurinn á Grensásvegi var opnaður í sumar.
Pizza 67 staður er einnig á Smiðjuvegi í Kópavogi en sá er ekki rekinn af sama hópi.
Ekki náðist í Anton við vinnslu fréttarinnar.