Kaup Jóns Ríkharðs Kristjánssonar, framkvæmdastjóra Mílu, á hlutum í Símanum, hafa verið dregin til baka.
Jón óskaði eftir því að kaupin yrðu dregin til baka eftir að Eftirlitsnefnd um jafnan aðgang fjarskiptafyrirtækja lýsti yfir efasemdum um hvort viðskiptin samræmdust sátt sem Síminn gerði upphaflega við Samkeppniseftirlitið árið 2013
Í tilkynningu til Kauphallarinnar kemur fram að Jón sé að selja 3.971.275 hluti á genginu 2,518 en það er útboðsgengið sem stjórnendum Símans bauðst. Heildarandvirði hlutarins nemur því tæpum tíu milljónum króna.
Meðaltalsgengi í almennu útboði var 3,33 krónur á hlut og er markaðsgengið í dag 3,48 krónur á hlut.
Í fyrrnefndri sátt við Samkeppniseftirlitið var ákvæði sem kvað á um að laun og önnur starfskjör starfsmanna Mílu ehf. skuli aðeins miðast við afkomu og árangur Mílu ehf.
Jón var í fjárfestahóp sem Orri Hauksson, forstjóri Símans, setti saman en hópurinn fékk að kaupa fimm prósenta hlut í fyrirtækinu.
Hlutur Jóns í Símanum komst í umræðuna eftir að í ljós kom að ranglega hafði verið tilgreint í útboðslýsingu að Jón hefði átt kauprétt að 714.853 hlutum.
Samkvæmt kaupréttaráætlun sem samþykkt var á hluthafafundi Símans hf. 8. september 2015 náði hún hins vegar ekki til starfsmanna Mílu ehf.