Atvinnu- og nýsköpunarráðuneytið hefur ákveðið að fresta réttaráhrifum þess að fella niður rekstrarleyfi skemmtistaðarins Austurs, en greint var frá því á mbl.is fyrr í dag að ráðuneytið hefði úrskurðað svo um. Þetta þýðir í raun að Austur verður áfram opinn og mun starfa samkvæmt núverandi fyrirkomulagi þangað til ráðuneytið ákveður annað.
Ásgeir Kolbeinsson, einn eigenda Austurs, hefur um nokkurn tíma átt í málaferlum við Gholamhossein M. Shirazi, sem hafði keypt í staðnum. Deila þeir um rekstur staðarins og er því ekki enn lokið í héraðsdómi.
Ásgeir segir í samtali við mbl.is að honum hafi ekki verið gefinn neinn tími til að koma með mótrök í málinu áður en ráðuneytið felldi úrskurðinn. Þegar hann hafi farið og rætt við starfsfólk þar hafi aftur á móti strax verið ákveðið að bíða með að framfylgja réttaráhrifum ákvörðunarinnar. Segir hann því staðinn áfram verða í resktri og að bíða verði þess að héraðsdómur dæmi í málinu.
Ásgeir og Shirazi hafa um nokkurt skeið eldað grátt silfur saman og segir Ásgeir að hann telji að ráðuneytið hafi verið blekkt og að það hafi tekið fyrri ákvörðun sína á grundvelli rangra upplýsinga. Segir hann viðskiptafélaga sinn hafa upplýst fjölmiðla um að staðurinn væri að missa rekstrarleyfið þótt hann hafi vitað að réttaráhrifum yrði frestað og staðurinn þar með opinn áfram.