Á þriðjudaginn verður gengið frá samningi milli Grímsnes- og Grafningshrepps og félagsins Grímsborga ehf. um kaup á tíu lóðum í Ásborgum undir íbúðarhúsnæði. Ásborgir eru félag í eigu Ólafs Laufdals, en hann hefur byggt upp 13 hús á svæðinu með um 100 herbergjum og 170 manna veitingastað. Ætlar hann sér að stækka hótelið talsvert með nýju lóðunum.
Á fréttavef Sunnlenska kemur fram að kaupverðið sé 11 milljónir án gatnagerðargjalda. Hefur Ingibjörgu Harðardóttur, sveitastjóra, verið falið að ganga frá samningum við Grímsborgir.
Í samtali við mbl.is staðfestir Ólafur að verið sé að ganga frá kaupunum, en viðræður hafa átt sér stað í nokkurn tíma. Segir hann að ekki sé ljóst hvenær og hvernig framkvæmdir verði á lóðunum, en að strax eftir áramót verði farið í vinnu við að skoða hvernig hús skuli byggja. Segist hann vonast til þess að framkvæmdir geti hafist strax í sumar.
Ólafur hóf starfsemi í Ásborgum árið 2010, en síðan þá hefur hann reist 13 hús á staðnum, en þar af eru 11 undir gistingu og eitt sem hýsir 170 manna veitingahús. „Ég get með glans tvöfaldað gistiplássið,“ segir hann aðspurður um hvað hann sjái fyrir sér að byggt verði. Hann tekur þó fram að það yrði ekki gert í einu lagi, heldur sér hann heldur fyrir sér að byggja næstu hús í nokkrum áföngum.
Hótelið hefur gert út á talsverðan lúxus og er til að mynda með nokkrar stórar íbúðir sem fjölskyldur eða hópar geta leigt. Þannig eru 8 íbúðir sem eru 200 fermetrar hver og 8 íbúðir sem eru 60 fermetrar. Þá eru sjö stórar svítur og tugir almennra herbergja. Samtals eru þetta um 100 herbergi sem geta hýst 200 manns að sögn Ólafs.
Ólafur hefur verið viðriðinn hótel- og veitingageirann í um hálfa öld, en hann rak meðal annars Broadway, Hollywood, Hótel Ísland og Hótel Borg. Þá hélt hann utan um fegurðarsamkeppni Íslands og flutti inn fjölda listamanna í nokkra áratugi.
„Ég vil vanda mig með þetta eins og ég get,“ segir hann um uppbygginguna í Ásborgum og bætir við að í þessum geira sé nauðsynlegt að láta þjónustuna vera betri en það sem gesturinn á von á.
Núna yfir jólin hefur verið nóg að gera hjá Ólafi, en hótelið hefur verið fullbókað og segir hann að svo verði áfram fram til 5. janúar. Þá komi nokkurra daga „hlé“ þar sem nokkur herbergi séu laus, en svo komi tímabil fram í mars þar sem mest allt sé uppbókað.