Félagið Poda ehf. var úrskurðað gjaldþrota í Héraðsdómi Reykjavíkum hinn 16. desember sl. Félagið var stofnað árið 2008 af Arnari og Bjarka Gunnlaugssyni ásamt Birni Steinbekk. Það hélt utan um verkefni sem fólst í byggingu og sölu á umhverfisvænum einbýlishúsum á Florida.
Síðar ætlaði félagið að ráðast í að reisa skrifstofubyggingar og hótel.
Í viðtali við Morgunblaðið í febrúar 2008 sögðu þeir ætlunina ekki vera að höfða sérstaklega til íslenskra auðmanna, heldur miklu frekar fólks úr röðum ríka og fræga fólksins í Bandaríkjunum, sem ætti fjölda húsa á þessu svæði. Í þeim hópi væru kvikmyndaleikarar, leikstjórar, tónlistarfólk, rithöfundar og fólk frá netfyrirtækjunum.
Arnar og Bjarki voru umsvifamiklir í fasteignaviðskiptum fyrir hrun. Þeir áttu m.a. um tíma hlut í félaginu Hanza-hópurinn ehf., en seldu hann frá sér árið 2007 til félagsins Merlu ehf., sem er félag Róberts Melax, stofnanda Lyfju og annars meðlimar í Hanza-hópnum.
Félagið var stórtækt í byggingarframkvæmdum og var um tíma eigandi fjölbýlishúsaverkefnis á Arnarneshæð í Garðabæ. Þá stóð félagið einnig fyrir framkvæmdunum á Rafha-reitnum í Hafnarfirði og endurbyggingu gamla DV-hússins að Þverholti 11, framkvæmdir sem félagið Þverholt 11 ehf. hélt utan um, en Hanza-hópurinn var eigandi þess félags.