Jóhannes Baldursson, sem sakfelldur var í Stím-málinu svokallaða, mun áfrýja málinu til Hæstaréttar. Þetta staðfestir lögmaður hans, Reimar Pétursson, í samtali við mbl.is. Samkvæmt upplýsingum mbl.is er líklegt að svo verði einnig í tilvikum þeirra Lárusar Welding og Þorvalds Lúðvíks Sigurjónssonar, en þeir voru einnig sakfelldir í málinu. Lét Þorvaldur Lúðvík meðal annars vita af því á Facebook strax eftir dómsuppkvaðningu.
Í málinu var Lárus ákærður fyrir umboðssvik með því að hafa farið út fyrir heimildir sínar til lánveitinga hjá Glitni banka þegar hann beitti sér fyrir því að félagið FS37, sem síðar varð Stim, fengi um 20 milljarða króna lán frá bankanum með veði í öllu hlutafé félagsins og bréfum í FL Group sem lánsféð var notað til að kaupa. Lánsféð var einnig notað til að kaupa bréf í Glitni.
Jóhannes var ákærður fyrir umboðssvik fyrir að hafa beitt sér fyrir því að fjárfestingasjóðurinn GLB FX, í eigu Glitnis banka, keypti framvirkt skuldabréf í Stím af Saga Capital. Þorvaldur var ákærður fyrir hlutdeild í umboðssvikum með því að hafa hvatt til þeirra viðskipta og liðsinnt Jóhannesi í þeim. Markmiðið með viðskiptunum hafi verið að tryggja að Saga Capital fengi kröfu sína að fullu bætta.
Lárus var fyrrverandi bankastjóri Glitnis, en hann var í héraði dæmdur í fimm ára fangelsi vegna umboðssvika. Jóhannes var framkvæmdastjóri markaðsviðskipta bankakns, en hann fékk tveggja ára fangelsisdóm fyrir umboðssvik. Þorvaldur Lúðvík var bankastjóri Saga Capital og fékk hann 18 mánaða dóm fyrir hlutdeild í umboðssvikum.