Fyrsti sölusamdráttur VW í 11 ár

Mynd frá mars úr verksmiðju VW í Wolfsburg.
Mynd frá mars úr verksmiðju VW í Wolfsburg. AFP

Sala á Volkswagen bifreiðum dróst saman á síðasta ári um 5% milli ára, en alls seldust 5,82 milljón VW bílar á árinu. Sala á Volkswagen bílum hafði ekki dregist saman milli ára í ellefu ár.

Sala á öllum bílum framleiddum af VW, s.s. Porche og Audi, dróst saman um 2% en alls seldust 9,93 milljón bílar samsteypunnar. Forstjóri VW, Matthias Mueller, sagði það þó afburða árangur í ljósi erfiðra markaðsaðstæðna á sumum mörkuðum og díselhneykslisins alkunna.

Markaðurinn virtist telja nokkuð að marka orð Mueller en hlutabréf í VW hækkuðu lítillega á föstudag.

Mueller er væntanlegur í Detroit í Bandaríkjunum þar sem hann mun halda blaðamannafund en hann hefur fullyrt að fyrirtækið muni áfram setja kraft í markaðssetningu á díselbílum vestra.

Saksóknarar segja VW ósamstarfsfúst

Tveir bandarískir fylkissaksóknarar hafa sakað VW um að vera enn í afneitun gagnvart díselhneykslinu sem skók fyrirtækið á síðasta ári en þeir segja Volkswagen skýla sér bakvið þýsk lög og neita að afhenda yfirvöldum vestra tölvupósta sem gengu manna á milli í höfuðstöðvum VW í Þýskalandi. Þolinmæði þeirra er sögð vera þverrandi gagnvart VW en fyrirtækið hefur þegar verið krafið um 20 milljarða dollara sektir vegna hneykslisins.

„Samstarfsvilji VW hefur verið kaflakenndur og minnir satt að segja meira á það sem maður býst við frá fyrirtæki í afneitun en því sem væri að segja skilið við játaða blekkingarmenningu,“ sagði Eric Schneiderman, fylkissaksóknari í New York.

Fulltrúi VW sagði fyrirtækið vinna með bandarískum yfirvöldum en frekari upplýsingar um yfirstandandi málaferli fengjust ekki gefnar.

Lausn í sjónmáli?

Hvað sem málaferlum líður ríður enn á VW að finna lausn á því hvernig það mun bregðast við öllum þeim fjölda bíla sem eru á götunum með svindltækninni innanborðs. Herbert Diess, yfirmaður hjá Volkswagen, mun hafa sagst vera bjartsýnn á að lausn sé í sjónmáli. „Við munum sníða lausn sem fyrst og fremst sættir viðskiptavini okkar en einnig yfirvöld,“ hefur BBC eftir honum.

Umhverfisstofnun Bandaríkjanna (EPA), sem ljóstraði upp um hneykslið, virtist þó ekki deila bjartsýni Diess og gaf út á mánudaginn að VW hefði „ekki sýnt fram á ásættanlega lausn.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK