Rúmum sex mánuðum eftir að veitingastaðurinn Nam við Laugaveg var tilbúinn til opnunar eru endanleg leyfi frá Reykjavíkurborg í höfn og eftir að hafa verið færður sex metrum innar í húsnæðinu vegna skipulagsmála er komið að stóru stundinni.
Klukkan ellefu á föstudag opnar Nam formlega að Laugavegi 18b.
„Þetta hefur verið athyglisvert ferðalag um víðlendur kerfisins en nú er bara skemmtun framundan og við hlökkum til að bjóða upp á mat sem er ekki líkur neinum öðrum asískum mat hérlendis, sem byggir á fersku hráefni, matreiðslu með ástríðu og á góðu verði,“ segir Emil Helgi Lárusson, annar eigenda Nam.
„Við Einar Örn Einarsson, sem stofnuðum Serrano, höfðum lengi gengið með þann draum í maganum að opna stað sem einbeitti sér að austurlenskri matargerð,“ segir Emil.
„Vorið 2011 fengum við pláss hjá N1 Bíldshöfða, en á þeim tíma var sænskur matreiðslumeistari, Alexander Sehlstedt, að vinna með okkur í Svíþjóð. Hann hafði yfirgripsmikla þekkingu á austurlenskri matargerð og hafði verið matreiðslumaður á Michelin stjörnu veitingastað. Hann setti saman matseðilinn meðan við settum staðinn saman,“ segir Emil Helgi um upphaf Nam en þeir félagar fylgdu ævintýrinu eftir með opnun annars Nam staðar á Nýbýlavegi í Kópavogi sumarið 2014.
Og nú er það sá þriðji.
„Það er frábært að komast í miðbæ Reykjavíkur og fara í samstarf með fólkinu á ferðaskrifstofunni Around Iceland sem eru í fremra rýminu, sem má sjást frá Laugaveginum. Við lögðum upp með þá hugmynd að útbúa notalegt umhverfi með frábærum mat á góðu verði fyrir alla þá sem eiga leið þarna hjá. Á föstudag verður sú hugmynd að veruleika.“
Ástæðan fyrir því að veitingastaðurinn má ekki sjást frá götunni eru starfsemiskvótareglur Reykjavíkurborgar um miðbæinn.
Eins og staðan er í dag er ekki hægt að lækka frekar hlutfall smásöluverslunar á jarðhæð við Bankastræti, Laugaveg og Skólavörðustíg.
Á staðnum er boðið upp á skálar og svokölluð bento box þar sem viðskiptavinurinn velur sinn grunn af salati, núðlum eða grjónum. Auk þess er boðið upp á núðlusúpur og Bahn Mi samlokur.
„Við erum kannski best faldi veitingastaðurinn í miðbænum en það er þess virði að finna okkur,“ segir Emil.