Hlutabréf í franska bílaframleiðandanum Renault hafa lækkað um 20% í verði í kauphöllinni í París eftir að tilkynnt var um að starfsmenn samkeppniseftirlitsins væru að störfum í starfstöðvum þess. Er jafnvel talið að rannsóknin beinist að því hvort fyrirtækið hafi svindlað á útblástursprófum líkt og keppninauturinn Volkswagen.
Um klukkan 11:30 hafði Renault lækkað um rúm 20% og eins höfðu hlutabréf keppinautarins Peugeot lækkað um 7%. Greint var frá því í morgun að starfsmenn samkeppniseftirlitsins væru að störfum í nokkrum af starfstöðvum Renault. Meðal annars höfðu þeir á brott með sér tölvur yfirmanna hjá fyrirtækinu.
Þetta hefur haft áhrif á gengi annarra hlutabréfa í kauphöllinni í París en CAC-40 vísitalan hefur lækkað um tæp 3% það sem af er degi.
Uppfært klukkan 12:34
Stjórnendur Renault hafa staðfest að fyrirtækið sé til rannsóknar en um sé að ræða rannsókn á búnaði sem er notaður í verksmiðjum fyrirtækisins. Í fréttatilkynningu frá Renault kemur fram að fyrirtækið vinni með yfirvöldum að rannsókninni og tekið er fram að ekki hafi verið notaður svindlbúnaður í bifreiðum þess.