Verðstríð: Kommóður lækka um 85%

Þórarinn Ævarsson, framkvæmdastjóri IKEA og MALM kommóðan.
Þórarinn Ævarsson, framkvæmdastjóri IKEA og MALM kommóðan. Samsett mynd

„Svona er bisness þegar menn eru ekki í samráði heldur samstuði,“ segir Þórarinn Ævarsson, framkvæmdastjóri IKEA. Verðstríð á kommóðum milli IKEA og Rúmfatalagersins hefur staðið yfir um nokkurt skeið og hefur verðið lækkað um allt að 85 prósent. 

IKEA MALM-kommóður hafa lengi verið algeng sjón á íslenskum heimilum. Í ágúst 2011 var verðið á þeim í hámarki. Þá kostaði hvít MALM-kommóða með tveimur skúffum 8.950 krónur, með fjórum skúffum kostaði hún 17.950 og með sex skúffum 29.950.

Á þeim tíma byrjaði hins vegar Rúmfatalagerinn að lækka verð á svipuðum kommóðum og þurfti IKEA að bregðast við. Síðan hafa fyrirtækin lækkað verðið á víxl og kosta fyrrnefndar kommóður nú í sömu röð 1.290, 3.990 og 4.590.

Verðlækkunin nemur allt frá 77 til 85 prósentum.

Borga með þeim

Við lauslega verðkönnun mbl virðast kommóðurnar vera ódýrastar hér á landi. Til samanburðar má nefna að MALM-kommóða með fjórum skúffum kostar 4.800 krónur í Danmörku og rúmar sex þúsund krónur í Svíþjóð.

„Við erum löngu farnir að borga með þeim,“ segir Þórarinn aðspurður hvort eitthvað sé lengur að hafa upp úr sölunni. „En þegar við erum að selja mörg þúsund vöruliði koma sumir betur út en aðrir þótt þetta teljist mjög óvenjulegt,“ segir Þórarinn og rifjar upp eftirminnilegt verðstríð á sprittkertum milli sömu fyrirtækja. 

Í nóvember 2011 voru bæði IKEA og Rúmfatalagerinn að selja poka með 100 sprittkertum á eina krónu. Stríðinu lauk hins vegar þegar IKEA svaraði endanlega fyrir sig og bauð tvo poka á eina krónu.

Þurfa að vera með það ódýrasta

„Það er skilyrði hjá IKEA að vera alltaf ódýrastir,“ segir Þórarinn. „Það er auðvitað verðstigi en ef þú ert að leita að herðatré átt þú að geta gengið að því sem vísu að þú fáir hvergi ódýrara herðatré en ódýrasta herðatréð í IKEA,“ segir hann. 

„Þannig er það með þessar kommóður. Við þurfum að vera með ódýrustu „modern“ kommóðurnar í landinu,“ segir hann og bætir við að MALM sé skilgreint sem modern, eða nútímalegur stíll.

Þórarinn segir fyrirtækið stunda virkt verðlagseftirlit. „Þetta er hornsteinn í okkar rekstri og við viljum meina að þetta sé ástæða velgengninnar.“

Skekkir samanburð

Sambærilegar kommóður eru í dag töluvert dýrari í Rúmfatalagernum en Þórarinn segir verðbilið þurfa að vera þannig að viðskiptavinir sjái greinilegan mun. „Þetta er virk samkeppni þótt þetta sé auðvitað komið út í hálfgera vitleysu,“ segir Þórarinn og bætir við að ástandið skekki verðsamanburð í versluninni. 

„Viðskiptavinir sjá þarna kommóðu sem kostar minna en sígarettupakki en sjá svo aðra í öðrum stíl sem kostar miklu meira. Það er óheppilegt og betra væri að slást með verðið á öllum kommóðum og vera með eðlilegt verð í heild,“ segir hann.

„En sá sem á endanum græðir er auðvitað Jón Jónsson viðskiptavinur og ég óska honum bara til hamingju,“ segir Þórarinn glettinn.

Rúmfatalagerinn hóf að lækka verð á kommóðum árið 2011 og …
Rúmfatalagerinn hóf að lækka verð á kommóðum árið 2011 og IKEA hefur fylgt fast á eftir. mbl.is/Friðrik
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK