Frakkar vonast til þess að hægt verði að aflétta viðskiptabanni Evrópusambandsins og fleiri ríkja gagnvart Rússlandi vegna Úkraínudeilunnar í sumar. Þetta kom fram í máli ráðherra efnahagsmála, Emmanuel Macron, í kvöld.
„Takmarkið sem við deilum öll er að hægt verði að aflétta viðskiptaþvingunum í sumar þar sem samkomulagið (Minsk-friðarsamkomulagið) hefur verið virt,“ sagði Macron við franska viðskiptasendinefnd sem er í Moskvu ásamt ráðherranum.
Leiðtogar Frakklands, Þýskalands, Rússlands og Úkraínu komu að gerð Minsk-samkomulagsins á fundi sínum í höfuðborg Hvíta-Rússlands í fyrra. Eftir undirritun þess fyrir tæpu ári dró verulega úr blóðbaðinu í Úkraínu en yfir níu þúsund manns létust í borgarastríðinu sem braust út í apríl 2014. Þrátt fyrir að vopnahlé sé í gildi þá er það afar brothætt.
Á föstudag sagði John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, að það væri möguleiki að aflétta viðskiptabanninu ef samkomulagið í Minsk verði haldið.
Ísland hefur stutt viðskiptaþvinganir ESB gegn Rússlandi. Samkomulag náðist í desember meðal ríkja Evrópusambandsins um að framlengja viðskiptaþvinganir gagnvart Rússlandi í sex mánuði. Viðskiptaþvinganir gegn Rússlandi af hálfu Evrópusambandsins gilda því fram í lok júlí.