Halldór Bjarkar Lúðvígsson, framkvæmdastjóri fjárfestingabankasviðs Arion banka, mun láta af störfum hjá bankanum eftir nokkra daga. Starfslokin eru í góðri sátt að sögn Haraldar Guðna Eiðssonar, upplýsingafulltrúa bankans, sem segir jafnframt að kaflaskil felist í breytingunni.
Aðspurður um ástæður starfslokanna segir Haraldur trúnaðarskyldu ríkja um starfsmannamál. Ekki hefur verið ráðið í stöðuna hans Halldórs.
Halldór hefur starfað sem framkvæmdastjóri fjárfestingabankasviðs frá september 2011 en hann var framkvæmdastjóri fyrirtækjaþjónustu bankans frá 2010 til 2011. Þá var Halldór viðskiptastjóri útlánasviðs Kaupþings frá 2005 til 2008.
Halldór hefur verið lykilvitni í Chesterfield og Al-thani málunum.
Í Al-Thani málinu var m.a. spiluð hljóðupptaka þar sem Halldór sagði að uppbygging viðskiptanna hafi verið gerð til að fela það að Ólafur Ólafsson ætti helmingshlut í þeim. Eina leiðin til að þau fengjust samþykkt væri að Al Thani væri eini aðilinn að þeim. 50 milljón dollara lán til félags sjeiksins væri í raun greiðsla (e. kickback) til þess að hann léði viðskiptunum nafn sitt.
Í Chesterfield réttarhöldunum kom m.a. fram að Halldór seldi bréf sín í Exista og Kaupþingi nokkrum dögum fyrir hrun.
Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrum forstjóri Kaupþings, benti á að Halldór hagnaðist um 5 milljónir á því og sakaði hann um innherjasvik. Halldór hafnaði þessu.
Í dómi málsins var bent á að ósamræmi hafi verið á milli skýrslugjafar Halldórs á meðan á rannsókn málsins stóð og fyrir dómi.