Eigendur Crowbar Protein, sem framleiðir skordýrasnakkið Jungle Bar, eru búnir að skrifa undir samning við dreifingaraðila í Bandaríkjunum. Ekki er þó ennþá búið að leysa úr málum fyrirtækisins á Íslandi en Jungle Bar var tekið úr búðarhillum eftir að hafa verið í sölu í skamman tíma.
Líkt og mbl greindi frá á dögum var ástæðan evrópsk reglugerð um nýfæði sem öðlaðist nýlega gildi á Íslandi.
Frétt mbl.is: Skordýrasnakkið tekið úr hillum
Málið er nú til skoðunar hjá Matvælastofnun og er þá m.a. verið að horfa til þess hvernig sambærilegum málum er háttað í öðrum Evrópulöndum, sem lúta sömu reglum en hafa þó rýmkað þær, þannig að markaðssetning á matvælum sem unnin eru úr skordýrum er heimil, líkt og í Bretlandi, Hollandi og Belgíu.
Stefán Atli Thoroddsen, einn eigenda Crowbar Protein, telur að neysla á skordýrafæði komi til með að aukast í framtíðinni. Hann segir leiðinlegt að koma að lokuðum dyrum á Íslandi en bætir við að tækifærin bíði þeirra erlendis. „Við einbeitum okkur að erlendum mörkuðum þar til eitthvað breytist á Íslandi,“ segir hann.
Stefán segir nýja dreifingaraðilann sérhæfa sig í að dreifa matvörum í heilsubúðir. „Þetta er mjög flott fyrirtæki sem hentar nákvæmlega því sem við erum að gera núna,“ segir hann. Fyrirtækið sér um dreifingu í Oregon, Washington og Illinois fylkjum í Bandaríkjunum.
Þá var annað upplag af skordýrasnakkinu framleitt á dögunum, alls tuttugu þúsund eintök. Í fyrsta kastinu voru einnig tuttugu þúsund eintök.
Jungle Bar hefur fengið mikla umfjöllun í erlendum miðlum og má þar m.a. nefna viðtöl í Newsweek, Wired og BBC.
Athyglinni hefur fylgt aukin sala á heimasíðu Jungle Bar og segir Stefán að pantanirnar komi víðs vegar að þrátt fyrir að flestar séu frá Bandaríkjunum.
Stefán stofnaði Crowbar Protein ásamt Búa Aðalsteinssyni í kjölfar verkefnisins Startup Reykjavík árið 2014. Fyrirtækið var fjármagnað í gegnum Kickstarter auk þess að hafa fengið styrk frá Tækniþróunarsjóði. Sala á skordýrasnakkinu hófst í desember sl.
Krybburnar í Jungle bar eru ræktaðar af krybbubónda í Kanada sem hefur leyfi frá ríkinu til skordýraframleiðslu til manneldis.