Anna Björk Bjarnadóttir hefur tekið við starfi framkvæmdastjóra hjá ráðgjafarfyrirtækinu Expectus af Ragnari Þóri Guðgeirssyni sem verður stjórnarformaður félagsins.
Anna Björk starfaði áður um tíma hjá TDC í Noregi og í átta ár hjá Símanum. Þar af fimm ár í framkvæmdastjórn.
Anna hefur starfað við ráðgjöf hjá Expectus síðan 2013 en síðasta árið hefur hún einnig verið framkvæmdastjóri dótturfélags Expectus sem framleiðir hugbúnaðinn exMon. Nú tekur hún við stjórn Expectus í heild.
Expectus er íslenskt ráðgjafarfyrirtæki sem sérhæfir sig í ráðgjöf á sviði stefnumótunar, rekstrar og upplýsingatækni.
Félagið uppfyllti, fyrst íslenskra fyrirtækja, skilyrði sem Microsoft Gold Partner á sviði viðskiptagreindar (e. Business Intelligence). Expectus Software ehf., dótturfélag Expectus framleiðir exMon hugbúnaðinn sem mörg af stærstu fyrirtækjum landsins nota til eftirlits með gögnum og ferlum en auk þess er Expectus endursöluaðili hugbúnaðarlausna, s.s. Tableau og Kepion.