Í nýju virðismati sem KPMG hefur unnið fyrir stjórn Borgunar er fyrirtækið metið á 19 til 26 milljarða króna. Þetta herma áreiðanlegar heimildir Morgunblaðsins.
Í efri mörkum virðismatsins, sem um er fjallað í Morgunblaðinu í dag, er fullt tillit tekið til þeirra tekna sem yfirtaka Visa International Service á Visa Europe mun geta tryggt fyrirtækinu.
Í lok nóvember 2014 tilkynnti Landsbankinn sölu á 31,2% hlut sínum í Borgun til hóps fjárfesta og stjórnenda Borgunar. Söluverð hlutarins var sagt tæpir 2,2 milljarðar króna. Sé virði hlutarins metið út frá virðismati KPMG er hann nú um 6 til 8 milljarðar króna eða nærri 4 til 6 milljörðum hærri en þegar Landsbankinn seldi.
Þegar Morgunblaðið leitaði viðbragða Hauks Oddssonar, forstjóra Borgunar, og Erlends Magnússonar stjórnarformanns fyrirtækisins, vildu þeir ekkert tjá sig um efni og innihald verðmatsins.
Íslandsbanki er stærsti eigandi Borgunar og heldur á 63,5% hlutafjár í fyrirtækinu. Gera má ráð fyrir því að sá hlutur sé nú metinn á 12 til 16,5 milljarða króna. Bankinn hafnaði tilboði frá breska greiðslumiðlunarfyrirtækinu UPG sem barst í Borgun á síðari hluta nýliðins árs. Hljóðaði lokatilboð UPG upp á 15 milljarða króna.
Í kjölfar þess að bankinn hafnaði tilboðinu munu aðrir hluthafar í Borgun hafa boðið Íslandsbanka hluti í fyrirtækinu til kaups á sama gengi. Ekkert varð af því að bankinn bætti við sig hlut í fyrirtækinu.