Hótel Adam fær falleinkunn hjá gestum

Hótelið er við Skólavörðustíg 42, fyrir ofan Krambúðina.
Hótelið er við Skólavörðustíg 42, fyrir ofan Krambúðina. Mynd/Já.is

Umsagnir um Hótel Adam á Skólavörðustíg, sem hefur vakið athygli fyrir að hvetja gesti til þess að kaupa frekar vatn en að drekka úr krananum, eru neikvæðar í 66 prósentum tilvika á Tripadvisor.

Hótelið situr í 96. sæti yfir 110 skráð hótel í Reykjavík á heimasíðunni og hefur alls fengið 88 umsagnir. Af þeim segja 37 að hótelið sé „terrible“ eða hræðilegt og 21 þeirra flokkar hótelið sem „poor“ eða lélegt.

Líkt og mbl greindi frá í morgun eru hótelgestir hvattir til þess að kaupa sérmerkt flöskuvatn á fjögur hundruð krónur í stað þess að drekka úr krananum. Veitur, dótturfélag Orkuveitunnar, segja öll vatnssýni sem tekin voru í Reykjavík á síðasta ári í fullkomnu lagi. 

Á merkimiða virðist ekki koma fram hver tappaði vatninu á flöskurnar.

Frétt mbl.is: „Drekkið ekki úr krananum“

Í einni umsögn hnýtir hótelgestur í fyrirmælin og segir að brennisteinslykt hafi verið af vatninu. „Vatnið lyktar eins og brennisteinn. Það er skilti sem segir manni að drekka ekki vatnið. Flöskurnar voru í litlum ísskáp. Ég vissi ekki hvað þær kostuðu og keypti því frekar flöskur í búðinni á neðri hæðinni.“

Ekki til rekstrarlegs framdráttar

Málið hefur vakið nokkurt umtal meðal fagfólks í ferðaþjónustunni á samfélagsmiðlum og hafa einhverjir áhyggjur af orðspori Íslands. Grímur Sæmundsen, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar, segist ekki hafa heyrt dæmi um viðskiptahætti sem þessa áður og telur að háttsemin verði hótelrekanda varla til rekstrarlegs framdráttar.

„Mér finnst þetta vera út í hött ef rétt reynist og sá sem stundar viðskiptahætti af þessu tagi mun hitta sjálfan sig fyrir,“ segir hann. „En ég tel að ferðamenn muni almennt ekki láta einn hótelhaldara í miðborg Reykjavíkur segja sér hvort kranavatnið sé í lagi eða ekki.

Það koma upp alls kyns hlutir sem blásnir eru upp í nútímafjölmiðlum og við getum ekki verið í löggæsluhlutverki fyrir hvern einasta einstakling sem stundar ferðaþjónustu í landinu,“ segir Grímur. „Þrátt fyrir að við reynum eftir fremsta megni að gæta orðspors Íslands sem ferðamannalands.“

Ekki hefur náðst í eiganda hótelsins þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir.

Vatnið er sérmerkt hótelinu en ekki kemur fram hvort viðurkenndur …
Vatnið er sérmerkt hótelinu en ekki kemur fram hvort viðurkenndur aðili hafi tappað því á flöskurnar. Mynd af Facebook
Gestir eru hvattir til þess að drekka ekki úr krananum.
Gestir eru hvattir til þess að drekka ekki úr krananum. Mynd af Facebook
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK