Air Atlanta flutti á síðasta ári 1,5 milljónir farþega og 257 þúsund tonn með flugflota sínum sem samanstendur af 17 breiðþotum.
Þegar mest er um að vera hjá Air Atlanta eru starfsmennirnir 1.200 frá 52 þjóðlöndum hvaðanæva úr heiminum. Í höfuðstöðvum félagsins í Kópavogi eru 120 starfsmenn sem sinna umsjón og eftirliti með flugrekstrinum þó það sé sjaldgæft að einhverjar af 17 breiðþotum félagsins sjáist á Íslandi. Stærsta starfsstöðin er í Jedda í Sádi-Arabíu þar sem eru 6-700 manns á vegum félagsins. Það er krefjandi fyrir starfsfólkið að fljúga út um allan heim en á síðasta ári flaug Air Atlanta til 67 landa og lenti á 155 flugvöllum. Allar tekjur félagsins verða til erlendis en eigendurnir segjast vera í veglegri útflutningsstarfsemi sem skili 5,6 milljörðum króna árlega inn í íslenskt efnahagskerfi af 33 milljarða króna veltu.
Það munaði hársbreidd að langri sögu Air Atlanta mundi ljúka á árinu 2008 en með útsjónarsemi og þrautseigju núverandi eigenda og stjórnenda félagsins hefur tekist að snúa rekstrinum við. Fjórmenningarnir sem eignuðust félagið í lok árs 2007 voru þá með nánast gjaldþrota fyrirtæki í höndunum. Þeim hefur tekist að byggja félagið upp að nýju en fjölmargar hagræðingaraðgerðir hafa skilað sér því nú er reksturinn kominn á lygnan sjó og hefur verið réttu megin við núllið síðustu sjö ár eftir mikinn taprekstur árin á undan.
Air Atlanta státar af 30 ára gamalli sögu en félagið var stofnað árið 1986 af Arngrími Jóhannssyni og Þóru Guðmundsdóttur. Í gegnum tíðina hefur félagið farið í gegnum sveiflur með margvíslegu eignarhaldi en í desember 2007 var það selt til fjögurra lykilstjórnenda sem eru núverandi eigendur.
Þeir eru Hannes Hilmarsson forstjóri, Stefán Eyjólfsson framkvæmdastjóri rekstrarsviðs, Geir Valur Ágústsson framkvæmdastjóri fjármálasviðs og Helgi Hilmarsson framkvæmdastjóri Air Atlanta Aviaservices í Bretlandi. „Við erum búnir að starfa við félagið í tæp 10 ár sem jafngildir þriðjungi af sögu þess,“ segir Hannes en hann hóf störf hjá Air Atlanta 2006. Hann segir að eitt af sínum fyrstu verkum hafi verið að ráða Stefán og Geir inn í fyrirtækið en Helgi hóf störf 1993.
Í höfuðstöðvunum í Hlíðasmára í Kópavogi eru 120 starfsmenn sem hafa umsjón og eftirlit með flugrekstrinum þó vélar félagsins sjáist sjaldan á Íslandi. Þetta kemur fram í umfjöllun um starfsemi Air Atlanta í ViðskiptaMogganum í dag.