Kvikmyndaframleiðslufyrirtækið Hrossabrestur ehf, sem er í eigu Friðriks Þórs Friðrikssonar og Benedikts Erlingssonar, hefur verið tekið til gjaldþrotaskipta. Fyrirtækið framleiddi kvikmyndina Hross í oss sem var vinsælasta íslenska mynd ársins í kvikmyndahúsum hér á landi árið 2013 og vann hún til fjölda verðlauna víða um heim árið 2013 og 2014.
Sjá frétt mbl.is: Framleiðslufyrirtæki Hross í oss ekki gjaldþrota
Hrossabrestur var stofnað árið 2012 og er skráð sem aðalframleiðslufyrirtæki myndarinnar Hross í oss. Myndin kom út í ágúst 2013 og fékk gríðarlega góða dóma bæði hér á landi og erlendis. Rúmlega 13.300 manns komu að sjá myndina hér á landi og þénaði hún 20 milljónir í miðasölu.
Þá fékk myndin fjölda verðlauna, meðal annars áhorfendaverðlaun Tribeca kvikmyndahátíðarinnar í New York árið 2014, íslensku Edduverðlaunin sama ár, kvikmyndaverðlaun Norðurlandaráðs 2014, en þeim verðlaunum fylgdu 350 þúsund danskar krónur í verðlaunafé. Þá var myndin á topp 50 lista Empire kvikmyndatímaritsins yfir bestu myndir ársins 2014 og fékk verðlaun sem besta myndin á kvikmyndahátíðinni í Brussel. Blaðamenn stærstu blaða Bretlands gáfu myndinni þá einnig mjög góða dóma.
Benedikt Erlingsson, leikstjóri og handritshöfundur myndarinnar, sagði í samtali við mbl.is í júní 2014 að góðir dómar hefðu ekki skilað sér í mikilli miðasölu hér á landi. Var hann að svara spurningu um hvort hann teldi að jákvæðar umsagnir myndu skila sér í aukinni aðsókn í Bretlandi: „Ég vona bara að fólk kaupi miða. Það er spurning hvort það gerist. Hrós dugði ekki hér á Íslandi – þótt það sé enn hægt að sjá hana í Bíó Paradís. Það eru reyndar bara túristar sem sjá hana hér,“ sagði Benedikt árið 2014.