„Allir telja sig hafa verið blekkta“

Jó­hann­es Bjarni Björns­son, lögmaður og eig­andi Lands­laga, sem sér um …
Jó­hann­es Bjarni Björns­son, lögmaður og eig­andi Lands­laga, sem sér um hópmálsóknina, með dómskjöl málsins. mbl.is/Styrmir Kári

Ekki þarf að leggja fram gögn um tjón hvers og eins aðila í málsóknarfélaginu sem stendur að hópmálsókninni gegn Björgólfi Thor. Málið er einungis höfðað til viðurkenningar á bótaskyldu og í slíku máli er ekki tekin afstaða til mögulegra bóta. 

Þetta kom fram í máli Jóhannesar Bjarna Björnssonar, sem fer fyrir málsóknarfélaginu, fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun. Tekist er á um frávísunarkröfu Björgólfs í dag.

Líkt og fram hefur komið krefst Reimar Pétursson, lögmaður Björgólfs, m.a. frávísunar á grundvelli þess að meint tjón hvers og eins er ekki aðgreint í stefnu.

Frétt mbl.is: „Öllu snúið á hvolf“

Jóhannes vísaði til þess að í viðurkenningarmáli sé ekki tekin afstaða til mögulegra bóta. Málið snúist um að fá leyst úr því hvort einhver atvik, eða einhverjar gerðir Björgólfs, hafi í fyrsta lagi átt sér stað, og í öðru lagi hvort það leiði þá til bótaábyrgðar. 

Reimar spurði í morgun hvaða mögulega tjóni þeir sem keyptu hlutina eftir þrot bankans hafi orðið fyrir. „Þeir eru bara að kaupa verðlausa hluti og það getur ekki verið neitt tjón í því,“ sagði hann.

„Allir urðu fyrir tjóni“

Jóhannes sagði ljóst að allir þeir sem hefðu átt hlutabréf, eða leiddu rétt sinn frá þeim með framsali eða erfðum, gætu orðið aðilar. 

Hann sagði meðlimi félagsins hafa lögvarða hagsmuni af því að fá úr því skorið hvort Björgólfur beri ábyrgð á því tjóni sem þeir telja sig hafa orðið fyrir. Aðstæður þeirra séu auðvitað mismunandi líkt og ávallt er í hópmálsókn. Sá munur leiði hins vegar ekki til þess að ekki sé hægt að leysa úr málinu. Krafan sé nægilega einsleit.

„Það liggur fyrir að allir félagsmenn urðu fyrir tjóni,“ sagði Jóhannes og bætti við að það skipti ekki máli á hvaða tíma þeir keyptu bréfin. Allir hafi að lokum átt verðlaus bréf og allir telji að tjónið megi rekja til blekkinga.

Það hvort skilyrði um orsakasamhengi eða sennilega afleiðingu teljist uppfyllt sé eitthvað til þess að leysa úr í efnismeðferð málsins.

Hefðu ekki kært sig um að vera hluthafar

Í stefnu máls­ins seg­ir að fé­lags­menn séu all­ir í þeirri stöðu að hafa orðið fyr­ir tjóni vegna þess að þeir áttu hluta­bréf í Lands­bank­an­um sem urðu verðlaus við fall bankans 7. októ­ber 2008 og að þeir hafi verið í þeirri stöðu vegna sak­næmr­ar hátt­semi Björgólfs.

Þeir hefðu ekki kært sig um að vera hlut­haf­ar ef upp­lýst hefði verið að Lands­bank­inn lyti stjórn Sam­son, eignarhaldsfélags Björgólfs, og hefði átt að telj­ast móður­fé­lag hans. Eins ef upp­lýst hefði verið um um­fangs­mikl­ar lán­veit­ing­ar bank­ans til Björgólfs. Hann hafi bæði brotið gegn upplýsinga- og yfirtökuskyldu.

Björgólfur hefur mótmælt þessu og sagt illt að dómskerfið þurfi að eyða tíma sínum í þennan málatilbúnað. Hann hefur sagt málið vera sprottið af þrá­hyggju Vil­hjálms Bjarna­son­ar, sem eigi sér lít­il tak­mörk.

Málið varðar eignarhald Björgólfs á Landsbankanum.
Málið varðar eignarhald Björgólfs á Landsbankanum. mbl.is/Kristinn Ingvarsson
Tekist er á um frávísunarkröfuna fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur.
Tekist er á um frávísunarkröfuna fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur. mbl.is/Ernir Eyjólfsson
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK