Alþjóðlegi húsgagnaframleiðandinn IKEA komst hjá því að greiða að minnsta kosti 1 milljarð evra í skatta í Evrópu á sex ára tímabili með því að notast við flókið net eignarhaldsfélaga og greiða einkaleyfisgjöld til dótturfélaga innan samstæðunnar sem voru staðsett þar sem hægt var að komast hjá skattgreiðslum af hagnaði af einkaleyfum. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu sem Græningjar við Evrópuþingið létu vinna og er birt í dag í samstarfi við mbl.is, Morgunblaðið og fjölmarga fréttamiðla víða um Evrópu, meðal annars Der Spiegel, Le Monde, Financial Times, Le Soir í Belgíu og Trouw í Hollandi.
Í skýrslunni er farið allt aftur til ársins 1991, en áhersla lögð á tímabilið 2009 til 2014. Þar kemur fram að IKEA hafi frá því á áttunda áratugnum hafist handa við að endurbyggja samsteypuna með það að leiðarljósi að koma sköttum undan. Meðal annars var samsteypunni skipt upp í tvo meginhluta, The Inter IKEA Group og The IKEA Group, þar sem Inter IKEA Group er eigandi IKEA hugverksins meðan IKEA Group starfrækir 328 verlanir IKEA í 28 löndum ásamt verksmiðjum og vöruhúsum.
Fyrirtækin í seinni hópnum greiða svo Inter IKEA Group 3% einkaleyfisgjöld sem nemur 3% af allri sölu fyrirtækisins, en í skýrslunni kemur fram að tilgangur þess sé að minnka hagnað í sölulandinu og koma honum í félög sem eru staðsett þar sem litlir eða engir skattar eru greiddir af honum.
Áður hefur verið bent á skattatilfærslur IKEA, en í þessari nýju skýrslu er kafað dýpra ofan í málið og komist að því að frá 1991 til 2014 hafi samstæðan notað hollenskt dótturfélag til að komast hjá því að greiða skatta af 84% af 14,3 milljarða evra einkaleyfisgreiðslum sem verslanirnar greiddu á tímabilinu. Fór fjármagnið í gegnum félög í Hollandi, Lúxuemborg og Liechtenstein og var annað hvort enginn skattur greiddur eða mjög lág prósenta.
IKEA hefur einnig frá síðustu aldarmótum notast við stórtæka lánastarfsemi milli dótturfélaga og þannig nýtt sér skattalöggjöf í Belgíu til að draga enn frekar úr hagnaði starfseininga víða um heim. Með því minnkaði fyrirtækið skattlagningu þar sem raunveruleg sala átti sér stað og færði fjármuni þangað sem engir skattar eru greiddir af vaxtatekjum, jafnvel þótt það sé í raun sami aðili sem sé lánveitandi og lántaki.
Þá segja skýrsluhöfundar að rannsókn þeirra á málefnum IKEA sýni fram á að nýlega samþykkt aðgerðaáætlun framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins varðandi skattaundanskot (Anti-Tax Avoidance Package) sé aðeins lítið skref í áttina að því að draga úr slíkum málum og að stór alþjóðleg fyrirtæki geti enn komist að miklu leyti hjá því að greiða skatta í Evrópu með allskonar tilfærslum.
Þegar IKEA endurskipulagði innri uppbyggingu sína var eins og áður segir félaginu skipt upp í tvær megin einingar. Fram kemur í skýrslunni að frá 1991 til 2014 hafi Inter IKEA Group, sem heldur utan um hugverkaréttinn eða einkaleyfin, tekist að minnka skattstofn sinn um meira en 12 milljarða evra með því að færa einkaleyfagreiðslurnar yfir í félagið IKEA Systems BV í Hollandi og þaðan áfram í skattaskjól.
Fyrirtækinu er kleift að gera þetta þar sem Holland er með fjölda tvísköttunarsamninga við önnur ríki sem kemur í veg fyrir að raunverulegt sölufyrirtæki sé skattlagt ef skattlagningin fer fram í Hollandi. Holland er aftur á móti ekki með skatta á einkaleyfisgreiðslur sem eru sendar áfram til annarra landa, jafnvel þegar um er að ræða skattaskjól.
Í dag nema þessar einkaleyfisgreiðslur meira en 1 milljarði evra árlega Með skattatilfærslunum kemst fyrirtækið hjá greiðslu á um 22% skatti af þessari upphæð segir í skýrslunni.
Að lokum eru upphæðirnar færðar áfram til Interogo Foundation í Lichtenstein. Með því kemst fyrirtækið með hagnaðinn að mestu óskattlagðan í skattaskjól. Þetta er meðal annars gert með því greiðslum sem merktar eru „önnur gjöld.“
Það félag var lengi vel vel geymt leyndarmál og það var ekki fyrr en sænskur blaðamaður gróf það upp árið 2011 eftir mikla rannsóknarvinnu að hann komst að því að stór hluti af hagnaði félagsins endaði í skúffum þess.
Til viðbótar við að vera endastöð skattatilfærslu samstæðunnar segir í skýrslunni að Interogo Foundation hafi árið 2012 selt IKEA vörumerkið til IKEA systems BV fyrir 9 milljarða evra. Meirihluti fjármögnunar kom með láni frá Interogo og þar með greiðir IKEA systems stórar upphæðir árlega í formi afborgana og vaxta af lánum til móðurfélagsins og lækkar í leiðinni eigin skattstofn. Á þriggja ára tímabili frá 2012 til 2014 greiddi IKEA systems tæplega einn milljarð evra í vexti af þessu láni til annars dótturfélags Interogo Foundation, Interogo Finance. Það félag er staðsett í Lúxemborg og greiddi aðeins 0,06% skatta af þessum greiðslum á tímabilinu og sendi 808 milljónir evra í arð til Interogo Foundation móðurfélagsins í Lichtenstein.
Skýrsluna má lesa í heild í viðhengingu hér að neðan.