Samkvæmt uppgjöri WOW air fyrir síðasta ár skilaði félagið hagnaði upp á 1,1 milljarð króna eftir skatta. Það felur í sér viðsnúning upp á rúma 1,7 milljarða frá fyrra ári, þegar liðlega 600 milljóna króna tap var á rekstrinum.
<br/><br/>Skúli Mogensen, forstjóri og eigandi félagsins, er ánægður með afkomu ársins en segir að hagnaður hefði getað orðið mun meiri en raun varð á. „Sú mikla lækkun olíuverðs sem varð á síðasta ári gefur okkur tilefni til mikillar bjartsýni. Hins vegar höfðum við fest eldsneytisverðið í árslok 2014 og sú ákvörðun ein og sér kostaði félagið um tæpan milljarð þegar upp var staðið, þar sem olíuverðið lækkaði jafn mikið og raun varð á. Nú í ár höfum við ekki fest verðið enn sem komið er og það eitt og sér gæti haft mjög jákvæð áhrif á rekstrarárið.“
<br/><br/>Skúli segir rekstrarniðurstöðuna undirstrika þann mikla vöxt sem félagið hafi gengið í gegnum og að allar kennitölur gefi til kynna að lággjaldamódelið sem keyrt hafi verið eftir sé að virka sem skyldi.
<br/><br/>„Vöxturinn hefur verið mikill og sætaframboðið hjá okkur fór úr 600 þúsundum í 840 þúsund sæti á síðasta ári. Þrátt fyrir það reyndist sætanýtingin 88%, sem telst afar hátt hlutfall hjá hvaða flugfélagi sem er, hvað þá félagi sem er að stækka með þeim hætti sem við erum að gera.“
<br/><br/>Alls námu tekjur félagsins á síðasta ári rúmum 17 milljörðum og jukust um 58% frá árinu 2014, þegar þær námu 10,7 milljörðum. Heildargjöld félagsins jukust um 38% og fóru úr 11,4 milljörðum í 15,7 milljarða.
<br/><br/>EBITDA-hagnaður var 2,5 milljarðar króna og EBITDAR, sem er hagnaður fyrir afskriftir, skatta, fjármagnsliði og leigugjöld, nam réttum 5,0 milljörðum, en var einungis um 300 milljónir króna árið á undan. EBITDAR-framlegð var 29,5%.
<br/><br/>Félagið hefur þegar greint frá áformum um mikinn vöxt á þessu ári. „Með auknu sætaframboði í 1,9 milljón sæti, mun stærri flugflota og aukna tíðni tel ég einnig að við eigum inni töluverða stærðarhagkvæmni í ár. Miðað við þessa miklu framboðsaukningu og bókunarstöðuna í dag gerum við ráð fyrir því að veltan fari úr tæpum 17 milljörðum í 39 milljarða á þessu ári.“
<br/><br/>Skúli segir að Ameríkuflugið hafi farið vel af stað þegar það komst á í fyrra. Viðbrögð við nýjum áfangastöðum á vesturströnd Bandaríkjanna hafi verið jákvæð.
<br/><br/>„Það er mjög sterk bókunarstaða á flugið til Kaliforníu þannig að við höfum tekið rétta ákvörðun þar. Við stefnum að því að verða leiðandi á lengri flugleiðum meðal lággjaldafélaga. Það má segja að helsta samkeppnin á því sviði sé frá Norwegian. Ég geri ráð fyrir því að nýtingarhlutfallið muni haldast áfram nærri 90% á þessu ári rétt eins og í fyrra.“
<br/><br/>Á þessu ári verður félagið með 11 Airbus-vélar á eigin flugrekstrarleyfi en í fyrra voru þær tvær.