Apple hefur átt í deilum við Bandarísku alríkislögregluna FBI. Fyrirtækið vill ekki veita yfirvöldum aðgang að síma mannsins er stóð á bak við skotárásina í San Bernandino í Kaliforníu. Apple segir málið ekki snúast um ósamvinnuþýðni heldur einkalífsvernd viðskiptavina.
Frá því í september 2014 hafa upplýsingar á flestum Apple-tækjum, þar á meðal textaskilaboð og ljósmyndir, verið dulkóðaðar þannig að óviðkomandi geti ekki náð í þær. Aðeins er hægt að nota lykilorð til að ná í upplýsingarnar. Ef tíu misheppnaðar tilraunir eru gerðar mun tækið sjálfkrafa eyða öllum upplýsingunum.
Jafnvel starfsfólk Apple getur ekki nálgast þessar upplýsingar. Fyrirtækið ákvað þetta eftir uppljóstranir Edwards Snowden varðandi eftirlit stjórnvalda
Bandarískur dómari hefur úrskurðað að Apple þurfi að veita FBI aðstoð með því að óvirkja aðgerðina á símanum sem veldur því að upplýsingarnar þurrkast út. Tim Cook, forstjóri Apple, hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem hann neitar því að opna nokkurs konar bakdyr að iPhone símanum fyrir stjórnvöld. Sagði hann mögulegar afleiðingar af gjörðum stjórnvalda vera hrollvekjandi (e. chilling).
Nú hafa forstjórar nokkurra annarra stórfyrirtækja stigið fram og tekið undir með Apple.
Sundar Pichai, forstjóri Google, birti nokkrar færslur á Twitter þar sem hann sagði skilaboðin frá Tim Cook vera mikilbæg. Öryggi viðskiptavina væri stefnt í hættu með slíkum þvingunaraðgerðum stjórnvalda. Málið gæti reynst slæmt fordæmi.
Þá segir Mark Surman, forstjóri Mozilla, í samtali við Business Insider, að málið gæti reynst hættulegt fordæmi. Í stað þess að grafa undan örygginu sem fyrirtæki hafa skapað viðskiptavinum ættu stjórnvöld að efla það.
Reform Government Surveillance er samstarfsverkefni nokkurra stærstu tæknifyrirtækja heims. Þar á meðal eru AOL, Apple, Dropbox, Evernote, Facebook, Google, LinkedIn, Microsoft, Twitter og Yahoo. Í yfirlýsingu þeirra er tekið undir afstöðu Apple og ítrekað að tæknifyrirtæki ættu ekki að þurfa að smíða bakdyr að upplýsingaöryggi.