FME getur ekki hindrað arðgreiðslur

,,Fjármálaeftirlitið leiðréttir missagnir FÍB en óskar félaginu jafnframt hins besta …
,,Fjármálaeftirlitið leiðréttir missagnir FÍB en óskar félaginu jafnframt hins besta í hagsmunabaráttu sinni," er yfirskrift yfirlýsingar FME. mbl.is/Júlíus Sigurjónsson

Fjármálaeftirlitið segir ýmsar missagnir vera í bréfi FÍB til fjármálaráðherra varðandi arðgreiðslur tryggingafélaganna. FME segist ekki hafa heimildir til þess að „skipa þeim að endurgreiða vátryggingatökum eign þeirra í bótasjóðunum eða nota fjármunina til að lækka iðgjöld næstu árin.“

Frétt mbl.is: Stingi ekki bótasjóðum í eigin vasa

FÍB, Félag íslenskra bifreiðaeigenda, birti bréfið í gær en þar er eftirlitið beðið um að grípa fram fyrir hendur tryggingafélaganna er hyggjast greiða hluthöfum samtals 9,6 milljarða króna arð. 

Frétt mbl.is:„Ættu að skammast sín“

Í yfirlýsingu á heimasíðu Fjármálaeftirlitsins segir að takmörkuð upplýsingagjöf vátryggingafélaganna gagnvart almenningi og hagsmunaaðilum, vegna fyrirhugaðra arðgreiðslna, sé ámælisverð.

Hafa ekki gætt að orðsporinu

„Tilgangur laga um vátryggingastarfsemi er að tryggja að vátryggingafélög séu rekin á heilbrigðan og eðlilegan hátt með hagsmuni vátryggðra, vátryggingartaka, hluthafa og alls þjóðarbúsins að leiðarljósi. Dæmi er um að vátryggingafélög hafi látið misskilning  og rangtúlkanir óátaldar og með því ekki gætt nægilega að orðsporsáhættu,“ segir eftirlitið.

Fjármálaeftirlitið segist hafa séð ástæðu til að leiðrétta missagnir FÍB án þess þó að taka afstöðu til ákvarðana vátryggingafélaganna um arðgreiðslur.

Er þá farið yfir ýmis atriði í bréfi FÍB. Þar segir m.a. að til þess að Fjármálaeftirlitið gæti gefið vátryggingafélögum bein fyrirmæli um ráðstöfun arðs til vátryggingartaka þyrfti skýra og ótvíræða lagaheimild þar að lútandi.

„Slík lagaheimild er ekki fyrir hendi. Hins vegar má geta þess að ef lágmarkskröfur um gjaldþol eru ekki uppfylltar getur Fjármálaeftirlitið takmarkað ráðstöfun fjármuna, þ. á m. útgreiðslu arðs. Skilyrði beitingar slíkrar heimildar eru ekki fyrir hendi.“

Þá segir að fyrirhugaðar arðgreiðslur séu í samræmi við núgildandi lög um vátryggingastarfsemi og að ekki sé rétt að þær byggist einungis á breyttum reikningsskilum.

Auk þess er vakin athygli á því að frá árunum 2009 til 2013 var ekki greiddur út arður hjá vátryggingafélögunum. Er því um að ræða uppsafnaðan hagnað sem félögin hafa verið að greiða út í arð sl. tvö ár.

Vátryggingatakar eiga ekki bótasjóð

Fjármálaeftirlitið bendir á að stjórn vátryggingafélags og hluthafar þess hafi ákvörðunarvald um hvort og þá hvernig vátryggingatakar njóti góðs af hagnaði félagsins.

Íslensk vátryggingafélög séu rekin sem hlutafélög og vátryggingartakar eigi því ekki eignir sem félögin nota á móti vátryggingaskuld, þ.e. bótasjóð, líkt og haldið er fram í umfjöllun FÍB. Verði vátryggingartaki fyrir tjóni kunni hann að eiga bótakröfu á hendur vátryggingafélaginu.

Grunnrekstur sé ekki rekinn með tapi

Fjármálaeftirlitið vísar þá einnig til þess að afkoma vátryggingafélaga hafi um árabil verið að miklu leyti háð afkomu af fjárfestingarstarfsemi en líkt og fram hefur komið vísuðu öll félögin til þess að aukinn tjónaþungi hefði haft slæm áhrif á reksturinn á síðasta ári.

Mikilvægt sé að tryggingafélögin leggi áherslu á að grunnrekstur þeirra sé ekki rekinn með tapi, þar sem félögin geti ekki reitt sig á að fjárfestingartekjur séu stöðugar.

Geta fært sig annað

Að lokum áréttar Fjármálaeftirlitið að neytendum sé heimilt að segja upp vátryggingum sínum hvenær sem er og færa til annars félags. Um sé að ræða nýlegan rétt neytenda sem kom til með lagabreytingu í júlí 2015.

„Telji neytendur á vátryggingamarkaði að orðspor vátryggingafélags síns sé slíkt að þeir vilji ekki una viðskiptum við það lengur geta þeir samkvæmt framanrituðu fært vátryggingar sínar annað.“

Fjármálaeftirlitið hefur svarað bréfi FÍB.
Fjármálaeftirlitið hefur svarað bréfi FÍB. mbl.is/Ómar Óskarsson
Vátryggingafélag Íslands hyggst greiða hæsta arðinn.
Vátryggingafélag Íslands hyggst greiða hæsta arðinn. mbl.is/Kristinn Ingvarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK