Dýr fjármögnun arðgreiðslna

Fyrirhugaðar arðgreiðslur skráðra tryggingafélaga hafa fallið í grýttan jarðveg.
Fyrirhugaðar arðgreiðslur skráðra tryggingafélaga hafa fallið í grýttan jarðveg. Samsett mynd

Ekki er einungis ástæða til þess að setja spurningamerki við arðgreiðslustefnur tryggingafélaganna heldur einnig fjármögnun þeirra. Már Wolfgang Mixa, aðjúnkt í fjármálum við Háskólann í Reykjavík, bendir á að VÍS sé að fjármagna arðgreiðslu með útgáfu skuldabréfa á slökum kjörum.

Þetta kemur fram í grein Más þar sem fjallað er um fyrirhugaðar arðgreiðslur tryggingafélaganna sem fallið hafa í grýttan jarðveg. Á síðasta ári voru arðgreiðslur sömu félaga þó hærri, eða 10,5 milljarðar króna. Í ár nemur fjárhæðin 9,6 milljörðum króna og er um 70 prósent hærri en samanlagður hagnaður félaganna.

VÍS greiddi í fyrra lægstu arðgreiðsluna, eða 2,5 milljarða, en greiðir nú 5 milljarða króna í arð í ár.

Már bendir á að lítið hafi farið fyrir umræðu um að sú arðgreiðsla hafi að stórum hluta til verið fjármögnuð með útgáfu skuldabréfa.

Líkt og fram kemur í tilkynningu VÍS til Kauphallarinnar bera skuldabréf VÍS 5,25% fasta verðtryggða vexti. Skuldabréfin eru til 30 ára en í bréfunum er uppgreiðsluheimild og þrepahækkun í vöxtum upp í 6,25% eftir 10 ár.

Áhætta fyrir VÍS

VÍS er með öðrum orðum að fjármagna arðgreiðsluna með útgáfu skuldabréfa á kjörum sem eru talsvert slakari en flestir Íslendingar fjármagna íbúðakaup sín. LSR býður til dæmis uppá fasteignalán þar sem að fastir vextir eru 3,60% og breytilegir vextir eru 3,13%,“ skrifar Már.

„Til að setja þessi kjör í einfalt samhengi, þá mun fjárfestir sem kaupir bréfin á þessum kjörum, miðað við að bréfin séu seld á pari, og getur endurfjárfest vaxtagreiðslur á sömu kjörum næstu 10 ár eiga orðið 66% meira að raunvirði.“

„Þetta kalla ég góða ávöxtun sem eigandi skuldabréfs, en afleit ávöxtun væri ég skuldari,“ skrifar Már.

„Vaxtakjörin eru reyndar svo slök að áætla mætti að töluverð áhætta væri fólgin í rekstri VÍS. Slíkt á ekki að eiga sér stað hjá tryggingarfélagi.“

Már Wolfgang Mixa, aðjúnkt í fjármálum.
Már Wolfgang Mixa, aðjúnkt í fjármálum.
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK