Ekki er ástæða til annars en að áætla að öll hlutabréf í Landsbankanum hafi orðið verðlaus í kjölfar þess að stjórn bankans var yfirtekin af Fjármálaeftirlitinu í október 2008. Eignir félagsmanna í málsóknarfélaginu er höfðaði mál gegn Björgólfi Thor Björgólfssyni fóru því forgörðum við fall bankans.
Þetta segir í úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur sem vísaði í morgun hópmálsókninni frá dómi. Úrskurðinum verður skotið til Hæstaréttar að sögn lögmanns málsóknarfélagsins.
Frétt mbl.is: Hópmálsókn gegn Björgólfi vísað frá
Málatilbúnaður félagsins byggði m.a. á því að hefði Björgólfur hagað sér á þann veg sem honum hafi borið að gera, þ.e. m.a. virt skyldu um að gera öðrum hluthöfum yfirtökutilboð, hefðu félagsmenn ekki verið í þeirri stöðu að eiga hlut í bankanum þegar hann féll.
Í úrskurðinum segir að þessi röksemdafærsla sé ljóslega háð þeirri forsendu að hver og einn félagsmanna hefði brugðist eins við. Allir félagsmenn, sem áttu hlutabréf í bankanum á þeim tíma, hefðu samkvæmt þessu selt hlutabréf sín í bankanum. Þá hefðu engir félagsmanna heldur keypt hlutabréf í bankanum.
„Almennt verður að ætla að ólíkar forsendur liggi að baki ákvörðunum einstakra fjárfesta við kaup og sölu á hlutabréfum,“ segir í úrskurðinum. Á þeim grunni verði að telja með ólíkindum að allir félagsmenn hefðu brugðist eins við þeim upplýsingum sem málsóknarfélagið telur að skort hafi á um viðskipti Björgólfs við bankann og stöðu Samson, eignarhaldsfélags hans, gagnvart bankanum.
Í úrskurðinum segir að þessi forsenda, að allir félagsmenn hefðu brugðist við upplýsingagjöf ýmist með því að selja hlutabréf sín í bankanum eða láta hjá líða að kaupa þau, sé háð mikilli óvissu.
Ekki hafi því verið gert viðhlítandi grein fyrir því tjóni sem félagsmenn áttu að hafa orðið fyrir.