Einungis hluti af þeim stjórnarmönnum sem Fjármálaeftirlitið hæfismetur fer í sérstakt viðtal þar sem þekking þeirra er metin. Ekki hafa allir stjórnarmenn íslenskra vátryggingafélaga farið í gegnum slíkt mat.
Samkvæmt upplýsingum frá Ólöfu Aðalsteinsdóttur, aðstoðarmanni forstjóra FME, hafa ekki komið upp mál að undanförnu þar sem stjórnarmaður í vátryggingafélagi hefur ekki verið metinn hæfur þegar tekið er tillit til almennra skilyrða um menntun, reynslu og fjárhagslegt sjálfstæði.
Í munnlega viðtalinu, sem ekki allir fara í, er hins vegar þekking þeirra á starfseminni og reikningsskilum könnuð vandlega auk þess sem farið er yfir skilning þeirra á hlutverki, ábyrgð og helstu verkefnum stjórnar og einstakra stjórnarmanna. Að lokum er sjálfstæði þeirra, dómgreind og viðhorf könnuð.
Í grein um hæfismat stjórnarmanna sem birtist í vefriti FME í apríl í fyrra segir að á tímabilinu frá 2010 til 2014 hafi 194 stjórnarmenn farið í viðtal hjá sérstakri ráðgjafanefnd sem metur þekkingu þeirra. Þar af reyndist þekking 180 stjórnarmanna fullnægjandi og þekking 14 stjórnarmanna ófullnægjandi.
Í byrjun árs 2015 sátu alls 626 aðilar í stjórnum fjármálafyrirtækja, lífeyrissjóða og vátryggingafélaga.
Samkvæmt framangreindu eru að meðaltali 38 stjórnarmenn teknir í sérstakt viðtal á hverju ári, eða um sex prósent stjórnarmanna fyrrgreindra fyrirtækja, hafi heildarfjöldi þeirra haldist nokkuð stöðugur á síðustu árum.
Rúnar Guðmundsson, sviðsstjóri vátrygginga hjá FME, skrifaði árið 2011 grein í tilefni af hertum reglum um hæfismat stjórnarmanna. Þessar hertu reglur fólu í sér umrædda heimild til þess að taka tiltekna stjórnarmenn í viðtal og kanna sérfræðiþekkingu þeirra.
Í greininni sagði Rúnar að örlög eldra Sjóvár Almennra trygginga hf., sem þurfti ríkisaðstoð árið 2008 þar sem félagið uppfyllti ekki lengur skilyrði til áframhaldandi vátryggingastarfsemi, sýndu að ekki væri vanþörf á ströngu eftirliti með fjármálamarkaðnum hér á landi í víðtækri merkingu þess orðs.
„Það má og minna á hversu hlutverk stjórnenda og stjórnarmanna er mikilvægt og hversu áríðandi það er að allir haldi vöku sinni og geri sér grein fyrir þeirri ríku ábyrgð sem fylgir t.d. stjónarsetu,“ skrifaði Rúnar.
„Dæmi er um stjórnir eftirlitsskyldra aðila sem virðast hafa verið óvirkar á liðnum árum þrátt fyrir augljós merki um erfiðleika fyrirtækjanna. Einstaka stjórnarmenn virðast hafa litið á það sem rós í hnappagatið að setjast í stjórn.“
„Þeir hafa ekki beitt sér og hafa ekki haft neina tilburði til að fara gegn straumnum. Liður í uppbyggingu heilbrigðs fjármálakerfis á Íslandi er að á þessu verði meginbreyting. Stjórnarmenn fyrirtækja verða að hafa kjark, þeir þurfa að spyrja nauðsynlegra spurninga og setja fram gagnrýni þegar við á. Þeir þurfa að stýra starfsemi félagsins og sinna mikilvægu eftirlitshlutverki sínu og taka meiriháttar ákvarðarnir líkt og lög gera ráð fyrir,“ sagði Rúnar.