Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, segir tryggingafélögin vera á skilorði og hvetur fólk til að fylgjast vel með og flytja viðskipti frá fyrirtækjum sem ganga gegn góðum viðskiptaháttum.
Þetta kemur fram í færslu Árna á Facebook, þar sem fyrirhugaðar arðgreiðslur lífeyrissjóðanna hafa verið honum ofarlega í huga á síðustu dögum. „Við breyttum lögum í sumar til að auðvelda fólki að flytja sig milli félaga. Sjálfur er ég hjá TM og mun fylgjast af athygli með framgöngu þess félags næstu daga,“ segir Árni.
Þá hrósar hann Ólafíu B. Rafnsdóttur, formanni VR fyrir að nýta afl sitt til að knýja fram góða stjórnarhætti fyrirtækja í þágu hagsmuna almennings og vísar þar til opinberrrar gagnrýni hennar á áætlanir tryggingafélaganna.
Þá segist hann ósammála Ástu Rut Jónasdóttur, stjórnarformanni Lífeyrissjóðs verzlunarmanna, sem sagði í gær að leiðbeiningar Ólafíu til stjórnar lífeyrissjóðsins væru óþarfi og taldi hana seka um skuggastjórnun.
„Algerlega ósammála. Góðir stjórnarhættir lífeyrissjóða fela í sér að áhrifum þeirra sé beitt í almannahag og forsvarsmönnum verkalýðsfélaga bera siðferðilega skyldu til að túlka þann almannahag,“ segir Árni.
„Gamla aðferðin, þar sem valdamiklir klíkukallar gátu sölsað undir sig atkvæðamagn sjóða almennings til að brjótast sjálfir til valda í viðskiptalífinu í krafti annarra manna peninga, á að heyra sögunni til,“ segir Árni. „Við eigum saman í gegnum lífeyrissjóðina verðmæt tækifæri til að stuðla að almannahagsmunum - frjálsri samkeppni, baráttu fyrir jöfnum launum kynja, tækifærum fyrir fólk með skerta starfsgetu og ábyrgri umhverfisstefnu. Þau eigum við að nýta, en leyfa ekki klíkuköllum að stjórna í krafti almenningseigna.“