Flöskuvatnið sem gestir gátu keypt á 400 krónur á Hótel Adam við Skólavörðustíg kom beint úr þeim krönum sem gestir voru varaðir við að drekka úr.
Eigandinn viðurkenndi að hafa tappað vatninu á flöskurnar í samtali við Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur. RÚV greinir frá þessu en líkt og fram hefur komið hefur eftirlitið áður staðfest að kranavatnið hafi verið í góðu lagi.
Ellefu herbergi á Hótel Adam eru ennþá innsigluð þar sem eigandi hefur ekki orðið sér úti um tilskilin leyfi.
Hótelið er aðeins með leyfi fyrir níu herbergjum en tuttugu herbergi hafa verið leigð út. Aukaherbergin eru ýmist í bakhúsi við Lokastíg eða í húsnæðinu við Skólavörðustíg. Herbergin verða lokuð þar til eigandinn hefur fengið leyfi frá lögreglunni, heilbrigðiseftirliti, byggingarfulltrúa og brunavarnaeftirliti.
Neytendastofa er ennþá með vatnssölu hótelsins til skoðunar.